Aldin Dynamics er lítið íslenskt fyrirtæki sem er í beinu samstarfi við Oculus um þróun á nýjungum í sýndarveruleikatækni. Eftir að hafa kynnt ýmsar nýjungar til sögunnar fyrir tölvuleiki í sýndarverueika vinna þeir nú að þróun á hugbúnaði fyrir Samsung Gear VR sem sett verður á markað í desember.
Þeir Gunnar Steinn Valgarðsson og Hrafn Þorri Þórisson stofnuðu fyrirtækið eftir að hafa kynnst í námi í HR. Þegar Oculus kynnti Rift-gleraugun snemma á síðasta ári vissu þeir að þar væri gott tækifæri til að nýta sína þekkingu með því að þróa hugbúnað fyrir sýndarveruleika. Leikur þeirra Asunder er með vinsælli leikjum sem hafa verið gerðir fyrir Oculus Rift búnaðinn og í honum kynntu þeir félagar ýmsar nýjungar sem hafa mælst vel fyrir, eins og að kinka kolli til annarra persóna í leiknum og hafa þannig samskipti við þá.
Oculus sem síðar var keypt af Facebook fyrir tvo milljarða dollara er nú í samstarfi við Samsung um þróun á Samsung Gear VR sem væntanlegt er á markað í desember en það eru samskonar gleraugu sem hægt er að setja síma í. Þeir félagar vinna nú að hugbúnaðargerð fyrir þessa tækni sem þeir segja hafa gríðarlega möguleika.
mbl.is tók hús á strákunum á dögunum.