Þrjár bílveltur í hálku

Sverrir Vilhelmsson

Tilkynnt hefur verið um þrjú umferðaróhöpp sem rekja má til færðar í Árnessýslu það sem af er degi, að sögn lögreglunnar á Selfossi. 

Um er að ræða tvær bílveltur í Grímsnesi og ein í Þrengslum en hálka er á þessum slóðum, að sögn lögreglu og eins er farið að snjóa víða í umdæmi lögreglunnar á Selfossi sem biður ökumenn að fara með gát.

Að sögn lögreglunnar á Ísafirði er leiðinlegt veður fyrir vestan, hvasst og slydda. Svipaða sögu er að segja hjá flestum lögregluumdæmum, veðrið er farið að versna en ekki orðið mjög slæmt ennþá. Lögreglan á Húsavík er nú að loka hluta Dettifossleiðar að beiðni Vegagerðarinnar enda komin vetrarfærð þar. 

Það er hálka á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum enda snjóar á svæðinu. Hálkublettir eru víða á Suðurlandi, jafnvel krap eða snjóþekja í uppsveitum.

Hálkublettir eru í Borgarfirði, á Mýrum og Vatnaleið  en hálka á Fróðárheiði, Bröttubrekku og Holtavörðuheiði. Eins eru sumstaðar hálkublettir í Dölum. Það éljar á Vestfjörðum og sumstaðar er skafrenningur. Hrafnseyrarheiði er þungfær og þæfingsfærð er á Dynjandisheiði. Annars er snjóþekja, krap eða nokkur hálka allvíða á Vestfjörðum og Ströndum.

Hálka eða hálkublettir eru á köflum í Húnavatnssýslum en vegir að mestu auðir í Skagafirði og við Eyjafjörð. Hálkublettir eru á Hólasandi og í Mývatnssveit en hálka og éljagangur á Mývatns- og Möðrudalsöræfum.

Það snjóar á Austurlandi og víða komin snjóþekja eða hálka, einkum á fjallvegum. Öxi er þungfær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert