„Þetta var mjög stormasamt samband“

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum fór fram á það við Héraðsdóm Reykjaness í dag að þrítugur karlmaður yrði dæmdur í átta mánaða fangelsi fyrir heimilisofbeldi. Maðurinn er ákærður fyrir að hafa ráðist á barnsmóður sína á og við heimili hennar í Vogum í sumar, þegar hún hélt á tíu mánaða barni þeirra.

Atburðarásin 22. júní síðastliðinn er að nokkru leyti óumdeild en mikið ber í milli þegar kemur að meintu ofbeldi. Parið var tiltölulega nýhætt saman og var maðurinn farinn að vinna í Noregi. Umræddan dag kom hann til landsins og sótti systir hans hann út á flugvöll. Þannig háttaði til að systir hans var með tíu mánaða dóttur parsins í pössun en barnsmóðirin vissi hins vegar ekki að maðurinn væri á leið til landsins.

Maðurinn bar fyrir dómi í morgun að hann hefði ákveðið að stoppa við hjá barnsmóður sinni í Vogum til að sækja þangað föt sín og muni. „Ég sagðist vilja hafa barnið enda að koma heim eftir þriggja vikna dvöl í Noregi. Hún neitar því og neitar að láta mig fá barnið. Hún segir mér að drulla mér út og læsir svo hurðinni. Á leiðinni út í bíl þá sparka ég í einhver húsgögn fyrir utan.“

Í frásögn sinni greindi maðurinn ekki frá neinum átökum, en hann neitar alfarið sök í málinu. „Nei, það er helst að hún hafi ráðist á mig. Hún hafði gert það áður, oft. Mig minnir að hún hafi ýtt við mér.“

Í ákæru kemur fram að maðurinn hafi hrint konunni í húsvegg, slegið hana með fartölvu og ýtt henni niður í sófa þegar hún ætlaði að standa upp. Allan þennan tíma hafi hún haldið á dóttur þeirra. Hún hafi við það hlotið ýmsa marbletti og eymsli. „Þetta er ekki eftir mig. Ég hef aldrei beitt hana ofbeldi,“ sagði hann og síðar að hann gæti ekki svarað fyrir það sem komi fyrir hana.

Borgaði fyrir að hafa barnið

Maðurinn sagði konuna áður hafa hótað því að hefta umgengni hans við barnið. „Ég þurfti að borga henni 30 þúsund fyrir að fá að hafa barnið í sex daga þarna áður,“ sagði hann og einnig að hún hafi sett afarkosti þegar gerður var samningur um umgengni í haust. „Hún sagðist ætla að falla frá kærunni ef ég myndi samþykkja að greiða tvöfalt meðlag. Hún hefur hótað mér með barninu. [...] Hún beitir barninu gegn mér sem vopni. Um það snýst þetta mál. Ég hef aldrei beitt hana ofbeldi og veit ekki fyrir hvað hún kærði mig.“

Spurður frekar um atvikin 22. júní ítrekaði maðurinn að hann hefði ekki beitt ofbeldi. „Ég grátbað um að fá að vera með barnið, en hún neitaði því.“ Hann sagðist hafa yfirgefið íbúðina enda hefði hún látið öllum illum látum. „Hún var búin að hóta ýmsu, um að ég fengi ekki að sjá barnið aftur. Þannig að ég ætlaði bara að sækja rétt minn á umgengni eftir öðrum leiðum. Svo fékk ég um kvöldið símtal frá vini hennar sem hótaði mér.“

Vildi ekki víkja úr dómsal

Barnsmóðirin gerði þá kröfu í morgun að manninum yrði vikið úr dómsal á meðan hún gæfi skýrslu þar sem það væri henni afar íþyngjandi. Réttargæslumaður konunnar sagði hana vera hrædda og að í aðdraganda málsins hefði hún verið gríðarlega kvíðin. Maðurinn og verjandi hans þverneituðu að verða við kröfunni og kom því til kasta dómara að úrskurða um málið.

Eftir umhugsunarfrest komst dómari að þeirri niðurstöðu að hafna bæri kröfunni og þar sem aðalmeðferðin var hafin, og þegar búið að taka skýrslu af manninum, var ekki hægt að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar. Dómarinn tók því fram að eðlilegra hefði verið að setja kröfuna fram fyrr, þannig að úrskurðinn mætti kæra til réttarins.

Fór svo að gerð var málamiðlun og fékk vinkona konunnar að sitja hjá henni á meðan hún gaf skýrslu sína, henni til stuðnings.

Fann af honum áfengisfnyk

Konan lýsti atburðarásinni á þann veg að systir barnsföðurins hefði daginn áður beðið um að fá dóttur þeirra til að fara með í fjölskylduboð. Hún hefði ætlað að skila henni á hádegi degi síðar, 22. júní. „Þarna klukkan tólf næ ég ekki á hana, en þegar ég loksins næ á hana ætlar hún að koma seinna,“ sagði konan og einnig að hún hefði fengið áfall þegar hún sá manninn einnig í bílnum. „Hann fer út úr bílnum og er að labba inn í íbúðina mína. Ég kalla á hann og segi að hann geti ekki komið án þess að gera boð á undan sér. Hann heldur áfram og reynir að komast inn í íbúðina og hendir mér í húsvegginn.“

Hún sagðist hafa elt hann inn og fylgst með honum taka til föt og fleira. „Þá finn ég hvað það er mikil áfengislykt af honum og hleyp þá út í bíl til að ná í dóttur okkar. Hann kemur á eftir og reynir að stoppa mig. Ég hleyp með dóttur okkar inn í húsið og sest með hana í sófann. Fyrir þetta hafði hann tekið fartölvuna sem lá í sófanum og hann sló mig með henni. Hann hrindir mér svo í sófann þegar ég reyni að standa upp, setur hnefann á loft og gerir sig líklegan til að kýla mig. Þá spyr ég hvort hann ætli virkilega að kýla mig á meðan ég held á barninu. Hann segir ekki neitt en öskrar eitthvað.“

Fékk nýlega nálgunarbann

Konan sagði að afleiðingarnar af árásinni væru enn meiri hræðsla við manninn en einnig líkamlegir áverkar, s.s. á öxl og læri. Hún sagði að þetta hefði ekki verið í fyrsta skipti sem hann lagði hendur á hana. „Þetta var mjög stormasamt samband. Það var mikið andlegt ofbeldi og mikil kúgun. Ég var búin að vera föst í þessu sambandi.“

Þá var upplýst að maðurinn hefði aftur ráðist á konuna í síðasta mánuði og í kjölfar þess hefði hún fengið nálgunarbann á hann. „Það er fyrst núna sem ég fæ frið frá honum.“ Fyrir það hafi hann hringt úr númerum sem hún þekkti ekki og hótað henni til að reyna að fá kæruna fellda niður. „Hann hélt áfram að stjórna mér og ég er hrædd við hann. [...] Lögreglan hefur þurft að koma á heimili mitt oftar en einu sinni eftir þetta. Ástæða þess að ég fékk nálgunarbannið var að hann hélt mér inni í bíl og réðst á mig.“

Þrátt fyrir þetta hefur maðurinn umgengnisrétt og sækir barnið á leikskóla á föstudögum og skilar því aftur þangað á mánudagsmorgnum.

Gerði athugasemdir við andvörp

Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi lögreglustjórans á Suðurnesjum í málinu, gerði athugasemdir við andvörp Snorra Sturlusonar, verjanda mannsins, á meðan konan gaf skýrslu. „Andvörp frá verjanda tíðkast ekki,“ sagði hún og tók dómari undir það. Mæltist dómarinn einnig til þess að Snorri léti af andvörpum sínum.

Í málflutningsræðu sinni tók Alda andvörpin upp að nýju. Sagðist hún telja óhjákvæmilegt að benda dómara d-lið 223. gr. laga um meðferð sakamála en í honum segir að dómari geti ákveðið sekt á hendur verjanda fyrir að misbjóða virðingu dóms með framferði sínu í þinghaldi.

Alda sagði að virkilega erfitt hefði verið fyrir vitnið að gefa skýrslu í málinu, enda geti ástand í heimilisofbeldismálum verið sérstaklega viðkvæmt. „Það að hann skuli sitja við hlið vitnisins og andvarpa yfir framburði þess. Ég hef aldrei orðið vitni af slíku áður í dómsal.“

Í ræðu sinni baðst Snorri afsökunar á andvörpum sínum og benti á að ekkert hefði frá honum heyrst eftir að dómari bað hann að gæta sín. „Þetta var ekki viljandi gert.“

Börnunum var brugðið

Meðal þeirra sem báru vitni í málinu voru nágrannar konunnar en atvik málsins gerðust um miðjan dag. Voru bæði mörg börn að leik í götunni og fólk almennt að huga að garðverkum. Sammerkt var með vitnunum að þau urðu vör við hávaðarifrildi en ekkert þeirra gat staðfest að maðurinn hefði beitt konuna ofbeldi.

Tvær nágrannakonur heimsóttu konuna hins vegar strax og maðurinn var farinn af vettvangi og sögðu þær hana hafa verið í miklu uppnámi. „Hún sagði að hann hefði ráðist á sig og lamið sig. Hún titraði öll og skalf. Það var augljóst að þetta tók á hana. Hún hágrét,“ sagði önnur þeirra. Hvorug þeirra sá áverka á konunni.

Þá tóku nágrannarnir fram að þeir hefðu flestir farið með börn sín inn í hús þegar rifrildið hófst en börnunum hefði brugðið mikið við að horfa upp á það.

Fegraði ástand sitt og framferði

Í ræðu sinni sagði Alda að framburður mannsins fyrir dómi hefði verið sambærilegur við þann sem hann gaf hjá lögreglu. „Að mati ákæruvaldsins hefur hann dregið verulega úr öllum atvikum. [...] Framburður hans samræmist í langfæstum atvikum framburði annarra vitna.“ Hún sagði að framburðurinn væri ekki trúverðugur og að meta bæri hann út frá hagsmunum mannsins að komast hjá refsingu. Hann hefði fegrað ástand sitt og framferði.

Hvað varðar trúverðugleika mannsins þá vísaði Alda einnig til þess að nálgunarbann væri í gildi frá september, ekki væri hægt að horfa framhjá því. Auk þess hefði maðurinn áður verið dæmdur fyrir líkamsárás. 

Hún sagði árásina grófa enda hefði maðurinn slegið barnsmóður sína með tölvu á sama tíma og hún hélt á ungbarni þeirra. Einnig sagði hún að fyrri árás ætti að leiða til refsiþyngingar og að átta mánaða fangelsi væri lágmark. Hún lagði það hins vegar í hendur dómara að meta hvort tilefni væri til að skilorðsbinda refsinguna að hluta.

Hótað af þekktum handrukkurum

Snorri krafðist sýknu fyrir skjólstæðing sinn. Í ræðu sinni sagði hann að ekkert vitni hefði séð manninn leggja hendur á barnsmóður sína. Vitni hefðu séð rifrildi, að hann hafi verið reiður og mögulega að þau hefðu verið að ýta hvort öðru. Hann gagnrýndi einnig að læknir hefði ekki verið boðaður til að mæta og gefa skýrslu. Konan hefði farið til læknis tveimur dögum eftir meinta árás en enginn hefði þann 22. júní séð neina áverka á henni. Það hlyti að rýra sönnunargildi læknisvottorðsins. „Ég kalla eftir sönnun um ofbeldi.“

Einnig sagði hann að ákæruvaldið gæti ekki vísað til málsins sem upp kom í september enda væri ekki ákært fyrir það. „Ég skil ekki hvernig ákæruvaldið getur séð þá tengingu að atburðarás í öðru máli eigi að geta haft áhrif í þessu máli.“ 

Ennfremur gagnrýndi Snorri rannsókn lögreglu. Aðeins einn þáttur málsins hefði verið rannsakaður en ekkert gert með þær upplýsingar sem komu frá manninum um að hann hefði  mátt þola hótanir frá vinum konunnar. Hann sagði að þar væri um að ræða þekkta handrukkara og komi það skýrt fram í lögreglugögnum.

Eftir málflutning var málið dómtekið og er dóms að vænta á næstu vikum.

Frétt mbl.is: „Ofbeldi á heimilum á ekki að líða“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert