Varhugavert að miða við hin Norðurlöndin

Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambands Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem þess er krafist að fyrirhugaðar breytingar á umhverfi framhaldsskólanna verði endurskoðaðar enda muni þær bitna af þunga á nemendum eldri en 25 ára. Bent er á að íslenskar aðstæður séu um margt sérstakar og því varhugavert að heimfæra stöðu mála á hinum Norðurlöndunum upp á Ísland.

„Hér á landi hefur ungt fólk haft aðgang að vinnumarkaðnum, ólíkt nágrannalöndunum, sem gerir það að verkum að oftar verður rof í námi. Brottfall er mikið og ber að vinna gegn því en ekki síður þurfa dyr skólanna að vera opnar fyrir endurkomu. Sú aldursmismunun sem ráðherra boðar með því að hefta endurkomu nemenda yfir 25 ára aldri inn í framhalsskólana verður til þess að takmarka möguleika fólks til menntunar og brýtur í bága við stefnu um hækkun menntunarstigs þjóðarinnar. Fækkun nemendaígilda kemur sérstaklega illa við fámennari framhaldsskóla og kippir jafnvel grundvellinum undan skólum í dreifðari byggðum,“ segir í ályktuninni.

Ennfremur kemur fram að sú hugmynd að fólk eldra en 25 ára sæki frekar inn í fullorðinsfræðsluna væri meira sannfærandi ef fjármagn í fullorðinsfræðslunnar ykist í jöfnu hlutfalli. Sú væri hins vegar ekki raunin og hættan væri sú að nemendur eldri en 25 ára þurfi að greiða töluvert meira fyrir nám en áður í gegnum fullorðinsfræðslu og frumgreinadeildir.

„Framkvæmdastjórn Starfsgreinasambandsins krefst þess að menntamálaráðherra endurskoði þessa ákvörðun og leggist á árarnar með verkalýðshreyfingunni að hækka menntunarstig og loki ekki leiðum og möguleikum til þess að svo megi verða. Stöndum vörð um sveigjanleika menntakerfisins og möguleika allra til aukinnar menntunar og þar með lífsgæða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert