Áfellisdómur yfir íslenskum dómstólum

Erla Hlynsdóttir.
Erla Hlynsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta eru gríðarlegar gleðifréttir og koma í rauninni ekki á óvart. Ég var alltaf mjög vongóð enda fannst mér dómurinn á sínum tíma vera mjög ósanngjarn,“ segir blaðamaðurinn Erla Hlynsdóttir en í morgun var kveðinn upp dómur í Mannréttindadómstóli Evrópu Erlu í hag en hún hafði höfðað mál gegn íslenska ríkinu. Erla kveðst ekki hafa lesið dóminn í þaula en málið snerist um um­mæli viðmæl­enda henn­ar um eig­in­konu Guðmund­ar Jóns­son­ar, Helgu Har­alds­dótt­ur, en Guðmundur rak meðferðar­heim­ilið Byrgið á þess­um tíma. Erla var í Hæsta­rétti árið 2010 dæmd til að greiða Helgu bæt­ur vegna viðtals­ins.

„Ég leit á það sem vísbendingu þess að það yrði dæmt mér í hag, þó það væri ekkert endanlegt í því, að málið var tekið fyrir. Það er gríðarlegur fjöldi mála sem er sendur til Mannréttindadómstólsins en flest þeirra mála er vísað frá, dómstóllinn tekur þau ekki einu sinni til skoðunar og dæmir ekki í þeim. Þegar ég vissi að málið yrði tekið til efnislegrar skoðunar og það yrði dæmt í því þá varð ég sérlega vongóð,“ segir hún.

Hefur áður unnið mál gegn íslenska ríkinu

„Íslenskir dómstólar hljóta að taka þessari niðurstöðu alvarlega, annað fyndist mér ekki eðlilegt. Þetta er auðvitað áfellisdómur yfir íslenskum dómstólum. Vonandi verður þetta mál fordæmisgefandi. Þessi meiðyrðamál hér á landi hafa mörg hver verið stórundarleg. Það eru nokkur ár síðan fólk fór að fara í meiðyrðamál við blaðamenn út af ótrúlegustu hlutum, að sama skapi féllu dómar sem mér þóttu hreint ótrúlegir,“ segir hún og kveður jafnframt viðkomandi máli lokið.

Þetta er í annað sinn á tveimur árum sem Erla vinnur mál gegn íslenska ríkinu fyr­ir Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu. Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn dæmdi að ís­lenska ríkið hefði brotið gegn 10. grein Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu sem fjall­ar um tján­ing­ar­frelsið, en í fyrra máli Erlu fyr­ir Mann­rétt­inda­dóm­stóln­um var einnig tek­ist á um 10. grein Mann­rétt­inda­sátt­mál­ans sem hef­ur verið lög­gilt­ur hér á landi. Íslenska rík­inu er gert að greiða Erlu 8.000 evr­ur í bæt­ur, en það svar­ar til 1.200 þúsund króna.

Þriðja málið til meðferðar

Það var í helgar­út­gáfu DV hinn 31. ág­úst 2007 sem Erla fjallaði um mál sem tengd­ust hjón­un­um sem ráku meðferðar­stofn­un­ina Byrgið á þeim tíma. Guðmund­ur var sakaður um að hafa beitt stúlk­ur sem dvöldu í Byrg­inu kyn­ferðis­legu of­beldi og hann var síðar dæmd­ur í tveggja og hálfs árs fang­elsi í Hæsta­rétti fyr­ir kyn­ferðis­brot gegn þrem­ur kon­um sem voru skjól­stæðing­ar hans. Hann var enn­frem­ur dæmd­ur til að greiða þeim bæt­ur að upp­hæð 800 þúsund til ein millj­ón króna. Hann var hins veg­ar sýknaður af ákær­um um brot gegn fjórðu kon­unni.

Í DV birti Erla viðtal við kon­ur sem höfðu orðið fyr­ir of­beldi af hálfu Guðmund­ar og þar er því lýst að eig­in­kona Guðmund­ar, Helga, hafi tekið virk­an þátt í kyn­lífs­leikj­um Guðmund­ar sem sjúk­ling­ar voru látn­ir taka þátt í þegar þeir dvöldu í Byrg­inu. Var kon­un­um tjáð af þeim Guðmundi og Helgu að kyn­lífs­leik­irn­ir væru hluti af lækn­ingameðferðinni.

„Þetta er auðvitað búið að taka ótrúlega langan tíma en þetta er þess virði og ég held að þetta sé til góðs fyrir íslenska blaðamenn og fjölmiðlaumfjöllun í heild á Íslandi,“ segir hún að lokum en þess má geta þriðja mál Erlu gegn íslenska ríkinu, er tekur á umfjöllun hennar um meintan fíkniefnasmyglara, er enn til meðferðar hjá Mann­rétt­inda­dóm­stóln­um og varðar einnig mörk tján­ing­ar­frels­is.

Fréttir mbl.is:

Dæmdir fyrir að vinna vinnuna sína

Erla Hlynsdóttir vann málið

Mannréttindadómstóll Evrópu.
Mannréttindadómstóll Evrópu. Ljósmynd/ECHR
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka