Norðurlöndin taki við veikum Íslendingum

Grunnþáttur viðbúnaðar gegn ebólu beinist að því að koma í …
Grunnþáttur viðbúnaðar gegn ebólu beinist að því að koma í veg fyrir smit milli einstaklinga. Í því felst að upplýsa alla um smitleiðir ebólunnar sem og að tryggja heilbrigðisstarfsmönnum viðeigandi hlífðarbúnað og kennslu í notkun hans. AFP

Viðamikil vinna við gerð áætlana gegn ebólu hér á landi hefur staðið yfir á undanförnum mánuðum. Núverandi áætlanir miða að því að reyna að flytja íslenska ríkisborgara sem veikjast erlendis til sérhæfðra sjúkrahúsa á Norðurlöndunum. Takist það ekki verða þeir fluttir með sérhæfðum flugvélum á Landspítalann.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa lagt áherslu á að Íslendingar ferðist ekki að nauðsynjalausu til landa í Vestur Afríku þar sem ebólan geisar, þ.e. Síerra Leóne, Gíneu, Líberíu og Nígeríu. Einnig að íslenskir hjálparstarfsmenn sem kunni að vinna með ebólusjúklinga dveljist utan ebólusýktra svæða í þrjár vikur fyrir heimferð til Íslands.

Þetta kemur fram á vef landlæknisembættisins.

Þar segir, að vinna við gerð áætlana hafi að mestu farið fram á Landspítala og einnig hjá sóttvarnalækni í samvinnu við ýmsa lykilaðila í samfélaginu. Hún byggi á nokkrum sviðsmyndum um hvernig sjúklingar með ebólu geti komið hingað til lands, hvernig meðferð þeirra yrði háttað og hvernig komið yrði í veg fyrir frekari útbreiðslu innanlands.

Hafa keypt birgðir af viðeigandi hlífðarfatnaði

Til að koma í veg fyrir útbreiðslu ebólu hér á landi þurfi allir að vera vel upplýstir um sjúkdóminn og smitleiðir hans, og heilbrigðisstarfsmenn að vera þjálfaðir í réttri notkun hlífðarbúnaðar.

Kjarninn í viðbragðsáætlunum felst í því að geta brugðist við ef ebóla berst hingð til lands, að greina sýkta einstaklinga eins fljótt og auðið er, að tryggja viðeigandi meðferð þeirra og að koma í veg fyrir smit til annarra, að því er segir á vef embættisins.

Þá segir, að nú þegar hafi verið keyptar birgðir af viðeigandi hlífðarbúnaði hér á landi og fyrirhugað sé að bæta við þær birgðir á næstunni. Sóttvarnalæknir og Landspítali munu á næstunni standa fyrir kennslu heilbrigðisstarfsmanna, sjúkraflutningamanna, lögreglu og annarra viðeigandi aðila um rétta notkun hlífðarbúnaðar. Þessir aðilar munu síðan geta kennt öðrum aðilum í samfélaginu rétta notkun slíks búnaðar eins og þurfa þykir. Á þann hátt er best tryggt að útbreiðslu ebólu verði haldið í lágmarki ef hún skyldi berast hingað til lands. Einnig er unnið að sérstakri aðstöðu og viðbúnaði á Keflavíkurflugvelli, að því er embættið segir.

Veikur flugfarþegi fær meðferð um borð vélarinnar

Á heimasíðu embættisins er m.a. fjallað um það hvernig bregðast skuli við ef einstaklingur grunaður um ebólu veikist í flugi til Íslands.

„Ef svo ólíklega skyldi vilja til að einstaklingur sýktur af ebólu veikist í flugi til Íslands, þá mun hann fá meðferð um borð í vélinni og einnig í Leifsstöð samkvæmt viðbragðsáætlunum sem gerðar hafa verið og birtar á heimasíðu Embættis landlæknis. Áhöfn og farþegar sem komast hafa í nána snertingu við hinn sýkta verða skráðir sérstaklega og þeim gefnar ráðleggingar um sérstakt eftirlit í framhaldinu,“ segir landlæknisembættið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert