„Ég hef spilað nógu marga tölvuleiki um ævina til að þekkja þetta vopn. Þetta er drápstæki,“ sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, um MP5 léttar vélbyssur sem ríkislögreglustjóri hefur fengið til embættisins. Kallað var eftir sérstakri umræðu um málið á morgun til að ráðherra geti skýrt út hvað sé rétt og hvað rangt í fréttaflutningi af málinu.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði fólk hafa miklar áhyggjur af þeim fréttum að almennir lögreglumenn fái vélbyssur til notkunar í störfum sínum. Hún segir að í fjárlagafrumvarpinu hafi verið gert ráð fyrir að almenn löggæsla yrði efld og lögbundnar skyldur. „Það er ekki að vopnvæða lögregluna.“ Hún hyggst kalla eftir fundi í allsherjar- og menntamálanefnd með innanríkisráðherra og ríkislögreglustjóra.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, bað forseta Alþingis að gera ráðstafanir þannig að hægt sé að hefja þingfund á morgun á sérstakri umræðu um vopnavæðingu lögreglunnar. Þannig geti innanríkisráðherra svarað fyrir málið. „Það er ekki hægt að láta svona orðróm eða fréttaflutning vera óstaðfestan.“
Fréttir mbl.is:
Byssurnar ekki komnar í bílana
Vill að þingið skoði vopnavæðingu