„Staðan er sú að þrátt fyrir að hafa lagt mig fram af mikilli sannfæringu síðustu 24 tímana þá er ljóst að það skellur á verkfall,“ sagði Sigrún Grendal, formaður Félags tónlistarkennara á samræðufundi tónlistarkennara í Kaldalónssal Hörpunnar í kvöld. „Ég trúi því þó að þetta verkfall verði mjög stutt.“
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld náðust samningar ekki á milli tónlistarkennara og sveitarfélaga í dag og hefst verkfall því á morgun. Verkfallið nær til kennara og millistjórnenda í rúmlega áttatíu tónlistarskólum um landið. Alls eru um 550 manns í félaginu en nokkrir af þeim eru skólastjórnendur sem fara ekki í verkfall.
Yfirskrift samræðufundarins var Er tónlistin minna virði í dag? og komu yfir 200 manns, tónlistarkennarar og aðrir sem sýndu stuðning sinn, saman á fundinum. Setið var í hverju einasta sæti og í hverri einustu tröppu í salnum, og finna mátti fyrir mikilli samstöðu. Hvert sem litið var mátti sjá skilti á lofti: Jörðum ekki tónlistarkennslu á Íslandi í dag! Við styðjum tónlistarkennara! Íslendingar eru tónlistarþjóð!
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, tók til máls eftir Sigrúnu og sagðist ánægður að heyra hvað formaðurinn væri bjartsýnn, en lýsti yfir miklum vonbrigðum með það að ekki hafi náðst samningar.
Dagur sagði áhyggjurnar vera af stöðu kjaraviðræðna annars vegar og af stöðu tónlistarskólanna hins vegar. „Ég get ekki leynt því að ég tek undir áhyggjurnar,“ sagði hann. Þá sagði hann þá kröfu að tónlistarkennarar væru bornir saman við aðra kennarahópa mjög sanngjörn, og í kjölfarið brutust út fagnaðarlæti í salnum.
„Þetta er vandasamt og flókið en það eru vonbrigði að þetta hafi ekki tekist í dag eða fyrr í þessari lotu. Ég vona að formaðurinn hafi rétt fyrir sér að þetta verði stutt verkfall, en þá þarf að ná samningum.“
„Ég tel að hið blómlega tónlistarlíf á Íslandi sé í hættu vegna skammsýni og þröngsýni kjörinna fulltrúa,“ sagði Dr. Ágúst Einarsson, prófessor við Háskólann á Bifröst í ávarpi sínu á fundinum. Hann sagði tónlistarkennslu stórlega vanmetna. Þá sagði hann kennsluna undirstöðu verðmætasköpunar í tónlist, en sú verðmætasköpun hér á landi er um 20 milljarðar á ári. Þá vinna um 2.000 manns hér á landi við tónlist.
„Togstreita á milli ríkisvalds og sveitastjórnar er algeng. Það er einfaldlega ekki ásættanlegt að tónlistarkennarar gjaldi þeirrar togstreitu,“ sagði hann.