Vill að þingið skoði vopnavæðingu

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar mbl.is/Ómar Óskarsson

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, fór fram á það á þingfundi í dag að Alþingi taki til umfjöllunar það sem hann kallaði vopnavæðingu almennra lögreglumanna. Hann sagðist neita að trúa að Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, hafi heimilað stórfelld vopnakaup án umræðu.

Hann sagði það fyrirkomulag sem verið hefur við lýði hafa reynst vel, það er að lögreglan sé vopnlaus en sérsveitin sé kölluð til við sérstakar aðstæður. „Það er óhugsandi að innanríkisráðherra hafi heimilað stórfelld vopnakaup fyrir almenna lögreglumenn í landinu, án þess að ræða það við þjóðina og þingið,“ sagði Helgi.

Hann sagði að um væri að ræða grundvallarmál, breytingu á íslensku samfélagi og lífsnauðsynlegt að málið fái vandaða umræðu.

Björn Valur Gíslason, varaþingmaður Vinstri grænna, sagði með ólíkindum að skorið sé niður á öllum sviðum en engu að síður sé hægt að kaupa hundruð nýrra skotvopna. Hann sagðist neita að trúa því að safnast hafi saman slíkur söfnuður innan ríkisstjórnarflokkanna að öllum finnist þetta allt í lagi. „Finnst ykkur þetta allt í lagi?“

Frétt mbl.is: „Lögregla alltaf haft vopn“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert