Enginn fundur boðaður

Fjölmennur baráttufundur tónlistarkennara í Hörpu í gærkvöldi.
Fjölmennur baráttufundur tónlistarkennara í Hörpu í gærkvöldi. mbl.is/Golli

Ríkissáttasemjari hefur ekki boðað til næsta fundar deiluaðila um kjör tónlistarkennara samkvæmt Sigrúnu Gren­dal, formanns Fé­lags tón­list­ar­kenn­ara. Verkfall um 550 tónlistarkennara í tónlistarskólum landsins hófst í morgun en Sigrún segir verkfallið einnig hafa áhrif í grunn- og framhaldsskólum.

„Það er mjög ánægjulegt að samstarf milli tónlistarskóla og annarra skóla sé að aukast og það sýnir mikilvægi tónlistarmenntunar í samfélaginu. Við höfum fengið margar fyrirspurnir vegna slíkra verkefna sem núna eru í uppnámi því þar þurfa tónlistarkennararnir að draga sig út,“ segir Sigrún.

„Ef marka má rödd foreldra á fundinum í gær þá er skilningur á mikilvægi tónlistarskóla að aukast,“ segir Sigrún og bætir við að stuðningur foreldra hafi fyllt hana eldmóði. 

„Stjórnvöld þurfa að hugsa upp á nýtt sýna nálgun. Frá mér séð erum við sammála um stefnuna en aðferðarfræðin er ólík. Okkar aðferðarfræði er nær eðli tónlistarinnar, sveigjanleg og skapandi en nálgun stjórnvalda er meira bundin í Excel og það gengur illa upp í þessu starfsumhverfi,“ segir hún.

Sigrún segist bjartsýn á að málstaður tónlistarkennara nái eyrum yfirvalda og að hún bíði spennt eftir fundarboði ríkissáttasemjara. 

Ekki allir í verkfalli

Sigrún tekur fram að verkfallið nær ekki til hefðbundinnar tónlistarkennslu í grunn- og framhaldsskólum. Verkfallið mun ekki hafa áhrif á kórastarf í kirkjum og öðrum vettvangi utan tónlistarskólanna auk þess sem vert er að muna að ekki allir tónlistarkennarar landsins eru félagsmenn í Félagi tónlistarkennara.

Í Skessuhorni greinir t.a.m. frá því að fjórir tónlistarkennaranna við Tónlistarskóla Akraness séu ekki í Félagi tónlistarkennara heldur í Félagi íslenskra tónlistarmanna og muni því halda áfram kennslu samkvæmt stundarskrá. Í tilkynningu segir Lárus sighvatsson skólastjóri skólans að hann vonist til þess að vinnustöðvunin verði stutt og að samningar um sambærileg kjör tónlistarkennara við aðrar kennarastéttir náist fljótt.

Frá baráttufundi tónlistarkennara í gær.
Frá baráttufundi tónlistarkennara í gær. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert