Læknaráð Landspítala lýsir yfir miklum áhyggjum af stöðu lækninga á Landspítala í ályktum sem samþykkt var á almennum læknaráðsfundi 17. október. Skorar læknaráðið á stjórnvöld að ganga frá kjarasamningi við lækna sem fyrst.
„Mannekla er mikil á vissum sviðum og hafa margir sérfræðilæknar hætt störfum undanfarin ár, og tekið með sér sérþekkingu og hæfni sem erfitt er að bæta upp. Læknar Landspítalans hafa nú sinnt vinnu sinni án gildandi kjarasamnings í nær níu mánuði,“ segir m.a. í ályktuninni og er bent á að læknar hafi nú boðið til vinnustöðvunar vegna ósamkeppnishæfra kjara.
„Ljóst er að vinnustöðvun lækna við Landspítala veldur mikilli truflun á starfsemi hans með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir sjúklinga og kemur til með að valda óöryggi og seinkun á meðferð þeirra,“ segir einnig í ályktuninni.
Náist ekki samkomulag hefjast verkfallsaðgerðir lækna 27. október og standa til 11. desember. Þó verður verkfall aðeins ákveðna daga og aðeins mun hluti lækna fara í verkfall hverju sinni.
Vinna lækna í verkfalli verður í samræmi við undanþágulista sem fjármálaráðuneytið birti í auglýsingu nr. 101/2014 og er gert ráð fyrir að á þeim dögum sem efnt er til verkfalla verði hverju sinni tryggð sambærileg mönnun og tíðkast á frídögum.
Sjá ekki til lands í læknadeilu