Ögmundur dró tillögu sína til baka

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Friðrik Tryggvason

Frumvarp Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, um að færa áfengissölu frá Vínbúðum ÁTVR til matvöruverslana, fer til meðferðar í allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis. Þetta varð ljóst þegar Ögmundur Jónasson dró til baka tillögu sína um að vísa frumvarpinu til velferðarnefndar.

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag lauk fyrstu umræðu um frumvarpið í gærkvöldi og átti því venju samkvæmt að fara beint til allsherjar- og menntamálanefndar, eins og flutningsmaður lagði upphaflega til. Hins vegar kom fram tillaga Ögmundar um að vísa frumvarpinu til meðferðar í velferðarnefnd og var atkvæðagreiðsla um val nefndar sett á dagskrá.

Ögmundur kvaddi sér hljóðs um atkvæðagreiðsluna og tók fram að eðlilegast væri að vísa málinu til velferðarnefndar, enda sé um lýðheilsumál að ræða eða heilbrigðismál sem heyri undir þá nefnd. Hins vegar hafi hann ákveðið að draga tillögu sína til baka en vonist til þess að allsherjar- og menntamálanefnd óski eftir umsögn velferðarnefndar.

Kom því ekki til atkvæðagreiðslu og mun allsherjar- og menntamálanefnd fjalla um málið og óska eftir umsögnum um það.

Frétt mbl.is: Fyrstu umræðu um áfengisfrumvarp lokið

Frétt mbl.is: „Dóp, en löglegt, sem betur fer“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert