„Fyrir liggur að ákvarðanir um vopnaburð lögreglu voru teknar með reglugerð á árinu 1999. Ögmundur gat breytt þessari reglugerð á meðan hann gegndi embætti ráðherra. Hann lét það ógert. Í því felst ábyrgð.“
Þetta segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á Facebook-síðu sinni í dag. Gagnrýnir hann þar yfirlýsingu sem Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og fyrrverandi innanríkisráðherra, sendi frá sér í dag þar sem hann lýsir óánægju sinni með að vera dreginn inn í umræðuna um 150 MP5 vélbyssur sem Norðmenn gáfu íslensku lögreglunni af Jóni Bjartmarz yfirlögregluþjóni. Sú vopnvæðing lögreglunnar væri ekki á hans ábyrgð. Þá hafi andstaða hans við að almennir lögreglumenn bæru vopn verið þekkt innan innanríkisráðuneytisins þegar hann var ráðherra.
„Til að framkvæma stefnuna þarf lögreglan tæki sem fullnægja nútímakröfum. Jón Bjartmarz kynnti rökin að baki endurnýjunar vopna lögreglunnar m.a. með því að vitna í skýrslu sem lögð var fram á ábyrgð Ögmundar. Það er ómaklegt af Ögmundi að láta eins og hann sé stikkfrí í þegar vopn lögreglu og beiting þeirra er til umræðu.“