Þurfa að geta gripið til vopna

mbl.is/Júlíus

„Þjálfun lögreglumanna í meðferð skotvopna hefur lengst af verið í mýflugumynd og að mínu mati ekki verið í samræmi við þann veruleika sem við búum við í dag,“ segir Gunnsteinn R. Sigfússon á Facebook-síðu sinni en hann starfaði um árabil sem lögreglumaður. Tilefnið er umræða um 150 MP5 hríðskotabyssur sem Norðmenn hafa gefið íslensku lögreglunni og hugmyndir hafa verið uppi um að koma fyrir meðal annars í lögreglubifreiðum.

Gunnsteinn leggur áherslu á að það sé ekkert nýtt að lögreglan hér á landi búi yfir vopnum. Það hafi hún gert í áranna rás. Yfirleitt hafi sá háttur verið hafður á að vopnin hafi verið geymd á lögreglustöðvum með þeirri undantekningu að sérsveitin hafi haft greiðari aðgang að skotvopnum. Þá hafi lögreglan á Keflavíkurflugvelli borið vopn lengi. Hins vegar væri sérsveitin ekki alltaf til staðar. Dæmi væru fyrir vikið um að óvopnaðir lögreglumenn hafi verið sendir á vettvang þar sem skotvopn hafi komið við sögu og nefnir hann sérstaklega eitt slíkt í Reykjavík fyrir nokkrum árum þar sem maður hafi verið skotinn til bana. Gunnsteinn segist þeirrar skoðunar að í slíkum tilfellum þyrftu venjulegir lögreglumenn að geta haft vopn við höndina.

„Ef að útkall sem þetta kemur t.d. upp á höfuðborgarsvæðinu getur staðan verið sú að vakthafandi sérsveitarmenn séu staddir í Keflavík, Selfossi eða annars staðar og því ekki í seilingarfjarlægð ef bregðast þarf skjótt við. Eins getur staðan verið sú í víðfeðmum embættum lögreglu á landsbyggðinni að lögreglumenn séu staddir í tugkílómetra fjarlægð frá lögreglustöð ef og þegar vopnamál kemur upp. Þá er spurningin hvernig þeir eiga að bregðast við í slíkum tilvikum?“ segir hann.

Hlutverk almennra lögreglumanna sé ekki og verði sjálfsagt seint að skiptast á skotum við vopnaða einstaklinga en sú staða geti hins vegar komið upp og þá sé lítið gagn í mace-brúsa og kylfu. Hann bendir á að miðað við fréttir séu engar hugmyndir uppi um að lögreglumenn beri vopn að staðaldri á meðal fólks heldur að þau verði geymd í læstum skápum í lögreglubifreiðum og verði til taks gerist þeirra þörf. Fjarri sanni sé að ekkert slíkt geti gerst hér á landi. Bendir hann á að fyrir örfáum árum hefði talist óhugsandi að vopnaður maður myrti tugi manneskja í Noregi.

Ekki sé útilokað að hingað til lands gætu komið einstaklingar í þeim tilgangi að fremja hryðjuverk. Komið hafi verið í veg fyrir ýmislegt af þeim toga á hinum Norðurlöndunum. Kannski telji einhverjir óhugsandi að slíkt gerist hér á landi og sem betur fer séu litlar líkur á því. Hins vegar spyr hann að lokum hvað eigi að gera ef það sem talið er óhugsandi gerist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka