„Það var rætt um rafbyssur, það var rætt um að hvaða marki lögreglan ætti að vopnvæðast í ljósi þess að við vorum að kljást við glæpagengi,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi innanríkisráðherra, þó hafi ekkert verið í tillöguformi og afstaða hans hafi verið skýr, lögreglan ætti ekki að vígvæðast því: „vopn kalli á vopn.“
Þetta segir Ögmundur aðspurður að því hvort kaup eða öflun 150 hríðskotabyssa hafi komið inn á borð til hans á meðan hann var innanríkisráðherra. Hann segir það óheiðarlegan málflutning að halda því fram að í skýrslum sem hafi verið gerðar í ráðherratíð sinni hafi verið einhverskonar kall um að efla vopnabúr lögreglunnar.