Glæsilegt fjögurra hæða steinhús hefur litið dagsins ljós á Grandagarði. Ekki þannig að um nýbyggingu sé að ræða, heldur hefur á síðustu árum verið rýmt til þannig að gamla síldarverksmiðjuhúsið við Grandagarð 20 nýtur sín til fulls.
HB Grandi er eigandi hússins og lét fjarlægja mjöltanka af lóðinni fyrir nokkrum árum og flytja til Vopnafjarðar og þá varð húsið betur sýnilegt. Klæðning hefur verið sett utan á húsið að hluta og fyrr á þessu ári voru yngri viðbyggingar fjarlægðar af lóðinni þannig að húsið blasir nú við vegfarendum á Grandagarði. Allt hefur svæðið smátt og smátt gengið í endurnýjun lífdaga.
Framkvæmdirnar við Grandagarð 20 þykja vel heppnaðar og hlutu sérstaka viðurkenningu Reykjavíkurborgar í lok ágústmánaðar.
Á heimasíðu Faxaflóahafna var á síðasta ári fjallað um húsið og endurnýjun þess og rifjað upp að árið 2012 var gert samkomulag við HB Granda hf. um úthlutun lóðar undir frystigeymslu, sem fékk nafnið Ísbjörninn, gerð útilistaverks á enda Norðurgarðs og lagfæringu ytra byrðis eigna HB Granda á athafnasvæði félagsins.
Vorið 2012 hóf fyrirtækið endurnýjun á ytra byrði gömlu síldarbræðslunnar, húsið var hreinsað og gluggar teknir úr áður en framkvæmdir við uppbyggingu þess hófust. Fram kemur á heimasíðunni að gamla síldarbræðslan var stundum nefnt Marshall-hús, en það var byggt skömmu eftir seinni heimsstyrjöldina.
Í umsögn Reykjavíkurborgar fyrir viðurkenninguna til HB Granda segir að framtak eigenda hússins sé einkar lofsvert og „mikilvægt fordæmi fyrir eigendur eldra iðnaðarhúsnæðis sem hefur gildi fyrir byggingarlistasögu og atvinnusögu Reykjavíkur.“