Á annan tug tónlistarnema á Akranesi hyggjast mótmæla verkfalli tónlistarkennara fyrir utan bæjarstjórnarskrifstofur sveitarfélagsins klukkan þrjú í dag. Óskuðu nemendurnir eftir fundi með bæjarstjóra til að leggja fram kröfur sínar en ekki var orðið við erindinu.
Aldís Ísabella Fannarsdóttir og Olga Katrín Davíðsdóttir fara fyrir mótmælendum. Þær segjast gera þá kröfu helsta að samið verði við tónlistarkennara hið snarasta, enda verði að öðrum kosti felldir niður tónleikar sem fara eiga fram í næstu viku.
Um er að ræða verkefnið Ungir-Gamlir með tónleikum sem fara eiga fram í Bíóhöllinni 30. október. Um er að ræða tvenna tónleika, þá fyrri fyrir nemendur grunnskólanna en seinni fyrir aðra gesti.
Ráðgert var að Eyþór Ingi og Friðrik Dór myndu syngja á tónleikunum. „Mikill metnaður er lagður í tónleikana og æfa nú nemendur grunnskólanna og tónlistarskólans baki brotnu til að gera tónleikana sem glæsilegasta,“ segir á vef Akranesskaupstaðar.
Raunin er hins vegar sú að nemendurnir æfa ekki undir handleiðslu kennara á meðan verkfalli tónlistarkennara stendur og eru tónleikarnir því í hættu. Munu tónlistarnemarnir berja á trommur og blása í flautur til að mótmæla því.