Hyggjast reisa 1.700 íbúðir í Skeifunni

Brunarústir í Skeifunni
Brunarústir í Skeifunni Ómar Óskarsson

Hugmyndir um að byggja 1.700 íbúðir í Skeifunni voru kynntar í skipulagsráði borgarinnar í gær. Þetta kemur fram á vef fréttastofu Rúv. Þar kemur jafnframt fram að Trípolí arkitektar hafi verið fengnir til að vinna hugmyndir að nýju deiliskipulagi í Skeifunni, en gríðarlegur eldsvoði kom þar upp í júlí sl. og hlaust mikið tjón af.

Haft er eftir formanni ráðsins að í nýju aðalskipulagi sé gert ráð fyrir að þarna geti risið 500 íbúðir, en arkitektarnir sýni hins vegar fram á það að á næstu 15 árum megi auðveldlega byggja 1.700 íbúðir á svæðinu.

Lögð verði áhersla á hæga þróun í átt að þéttri og blandaðri byggð. Þá verði gatnakerfið tekið til gagngerrar endurskoðunar. Þrátt fyrir það muni svæðið halda ákveðnum megineinkennum sínum sem verslunar og þjónustusvæði. Á brunareitnum sjálfum sé gert ráð fyrir byggingum með verslunum og þjónustu á jarðhæð, en íbúðum á efri hæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert