Stóð aldrei til að kaupa vopnin

Ríkislögreglustjórinn merkið á húsinu að utann
Ríkislögreglustjórinn merkið á húsinu að utann mbl.is/Árni Sæberg

Embætti ríkislögreglustjóra stendur við yfirlýsingar um að afhending MP5 vopna til lögreglunnar hafi átt að vera lögreglunni að kostnaðarlausu. „Aldrei stóð til af hálfu lögreglunnar að kaupa vopnin,“ segir í fréttatilkynningu frá ríkislögreglustjóra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra vegna umfjöllunar RÚV í kvöld sem hafði eftir upplýsingafulltrúa norska hersins að Landhelgisgæslan hefði í lok síðasta árs keypt 250 MP5 hríðskotabyssur af norska hernum. 

Landhelgisgæslan hefur einnig sent frá sér tilkynningu vegna sama máls.

Í tilkynningu ríkislögreglustjóra segir, að norsk sendinefnd á vegum þarlendra varnarmálayfirvalda hafi komið til landsins í júní 2013 í boði utanríkisráðuneytisins og heimsótti af því tilefni m.a. æfingaaðstöðu lögreglu á Keflavíkurflugvelli ásamt fulltrúum utanríkisráðuneytisins og Landhelgisgæslunnar.

„Sendinefndin upplýsti að Norðmenn hefðu afhent Landhelgisgæslunni öryggisbúnað og rætt var um að lögreglunni stæði mögulega til boða að fá til eignar MP5 hríðskotabyssur, lögreglunni að kostnaðarlausu. Um væri að ræða vopn sem verið væri að afleggja hjá norska hernum. Ekki stóð til að greiða þyrfti fyrir vopnin.

Embætti ríkislögreglustjóra lýsti yfir áhuga á að fá fyrir lögregluna slík vopn og norsk varnarmálayfirvöld upplýstu í framhaldinu að senda þyrfti fyrirspurn „forespörsel om overtagelse av materiell“ til „Forsvarssjefen“ með beiðni um að málið yrði tekið til skoðunar. Bréf þessa efnis var sent 15. ágúst 2013 og orðalag þess samkvæmt leiðsögn Norðmanna. Um fyrirspurn var að ræða sem ekki barst svar við frá „Forsvarssjefen“. Fyrirspurn embættisins í tölvupósti um hvort þessu kynni mögulega að fylgja kostnaður, ef til þess kæmi að lögreglan fengi vopnin án endurgjalds, var heldur ekki svarað,“ segir í tilkynningunni.

„Í janúar 2014 bárust síðan upplýsingar frá Landhelgisgæslunni um að vopnin væru væntanleg og lögreglan gæti fengið allt að 150 stk. MP5. Vopnin eru hjá Landhelgisgæslunni og hefur ríkislögreglustjóri ekki tekið við þeim né samþykkt kaup á þeim. Hins vegar fékk embættið afnot af 35 stk. við æfingar á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og hefur þeim verið skilað.

Embætti ríkislögreglustjóra var ekki kunnugt fyrr en í gærkvöldi um samning sem talsmaður norska varnarmálaráðuneytisins upplýsti um í kvöldfréttum RÚV að hefði verið gerður þann 17. desember 2013.

Aldrei stóð til af hálfu lögreglunnar að kaupa vopnin og mun embætti ríkislögreglustjóra ekki taka við vopnunum sem lögreglunni stóð til boða fyrir milligöngu Landhelgisgæslunnar, þurfi lögreglan að bera af því kostnað,“ segir ennfremur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka