Mögulegur raforkustrengur á milli Íslands og Bretlands strandar á því að Íslendingar vita ekki hvað þeir vilja í þeim efnum. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag. Sakaði hann Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, um að vinna ekki heimvinnuna sína þegar kæmi að undirbúningi málsins. Spurði hann ráðherrann hvenær hann ætlaði að hefja könnunarviðræður við Breta um slíkan raforkustreng.
Ragnheiður Elín hafnaði alfarið orðum Össurar og sagði málið í góðum farvegi. „Það er verið að vinna þetta mál mjög vel, ég leyfi mér að fullyrða það, og það er rangt sem kemur fram hjá þingmanninum að við höfum ekki verið að vinna þetta og að það hafi ekkert gerst í þessu máli. Það er rangt.“ Sagði hún íslensk stjórnvöld hafa verið í sambandi við breska ráðamenn vegna málsins. Frekari undirbúningsvinna væri hins vegar nauðsynlegt hér á landi og sagði hún bresk stjórnvöld hafa skilning á því. Sú vinna væri í fullum gangi.
„Hvað varðar spurningu þingmannsins um könnunarviðræður við Bretland þá tel ég ekki tímabært á þessu stigi málsins, áður en við sjálf höfum aflað okkur þeirra upplýsinga sem ég nefndi, að fara í viðræður við hvorki bresk stjórnvöld né aðra. En við erum í góðu sambandi við þarlend yfirvöld og erum að vinna þetta mál mjög vel og það er komið í góðan farveg,“ sagði Ragnheiður ennfremur.