Afhenti styrki til jafnréttisrannsókna

Við afhendinguna fyrr í dag.
Við afhendinguna fyrr í dag. Ljósmynd/Forsætisráðuneytið

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, afhenti í dag, á kvennafrídeginum og degi Sameinuðu þjóðanna, fjóra styrki til rannsóknarverkefna á sviði jafnréttismála, samtals að upphæð 8,6 milljóna króna. Ráðherra afhenti styrkina við árlegt málþing Jafnréttissjóðs, sem hann ávarpaði fyrr í dag.

Styrkina hlutu Björg Hjartardóttir, doktorsnemi við University of British Columbia í Kanada til rannsóknar á Vestur-íslenska kvenréttindablaðinu Freyja, Guðný Björk Eydal prófessor og Ingólfur V. Gíslason dósent við Háskóla Íslands til rannsóknarinnar Jafn réttur til fæðingarorlofs: Hvernig haga pólskir og íslenskir foreldrar atvinnuþátttöku og umönnun barna sinna?, Guðný Gústafsdóttir doktorsnemi við Háskóla Íslands til rannsóknar á mótsögnum kvenleikans, kyngervi og þegnrétti á Íslandi og loks Marta Einarsdóttir sérfræðingur við Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri til rannsóknar á íslensku ofurfjölskyldunni – samræmingu fjölskyldu og atvinnulífs.

Í ávarpi ráðherra kom fram að við stofnun Jafnréttissjóðs á þrjátíu ára afmæli kvennafrídagsins 2005 hafi sjóðurinn verið kynntur sem gjöf til jafnréttis- og kvennahreyfingarinnar í landinu og þakklætisvottur fyrir það afl, frumkvæði og nýsköpun sem í henni hefur falist til framfara, mannréttinda og almennrar velsældar í samfélagi okkar. „Forsætisráðherra vék m.a. að fyrirhugaðri karlaráðstefnu sem Ísland og Surinam hyggjast standa fyrir í New York á næsta ári og kvað hann tíðindin sem felast í þeirri ráðstefnu fyrst og fremst vera þau að þar verða karlar kallaðir til umræðu um kynbundið ofbeldi,“ segir í fréttatilkynningu frá Forsætisráðuneytinu.

Hér má sjá ávarp ráðherra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert