Rjúpnaveiðitímabilið hefst í dag og stendur til 16. nóvember. Slysavarnafélagið Landsbjörg vill vekja athygli á að veðurspá helgarinnar er víða þokkaleg og því líkur á að margar skyttur muni leggja land undir fót.
Á veiðitímabilinu eru veiðar heimilar föstudaga, laugardaga og sunnudaga. „Síðustu ár hefur nokkuð verið um tilvik þar sem björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til að leita að rjúpnaveiðimönnum þótt þeim hafi farið fækkandi, sé litið til lengri tíma. [...] Því þykir rétt að koma á framfæri nokkrum ferðareglum sem gott er að hafa í huga áður en lagt er af stað í veiðiferðina.
Ferðareglur rjúpnaskyttunnar:
- Fylgist með veðurspá og farið eftir henni
- Gerið ferðaáætlun og skiljið hana eftir hjá aðstandendum og/eða á vefnum www.safetravel.is
- Kynnið ykkur vel það svæði sem ferðast á um
- Fjarskipti þurfa að vera í lagi, gps, kort, áttaviti og talstöð/sími og kunnátta verður að vera til staðar til að nota þau
- Klæðist skjólgóðum fatnaði sem hentar til útivistar
- Takið með sjúkragögn og neyðarfæði
- Verið viss um að farartækið sé í góðu ásigkomulagi áður en lagt er af stað
- Ferðist ekki einbíla
- Takið með grunnviðgerðardót fyrir farartækið og festið allan farangur
- Munið að akstur og áfengi fer ekki saman
- Notið hjálma, brynjur og annan hlífðarfatnað ef farið er um á vélsleða eða fjórhjóli
- Betra er að snúa við í tíma en að koma sér í ógöngur