Af um 2.000 starfsmönnum viðskiptabanka og sparisjóða sem hafa misst vinnuna frá hruni eru um 1.500 konur. Flestum bankastarfsmönnum, eða 1.200, var sagt upp á árunum 2008 til 2009 en um 800 hafa misst vinnuna til viðbótar síðan þá.
Hlutfall kvenna í störfum í bönkum hefur verið á bilinu 70 til 80% undanfarin 30 ár og það eru fyrst og fremst konur sem eru að missa störfin núna. „80 til 90% af þeim sem eru að missa vinnuna í viðskiptabankaþjónustunni eru konur. Fyrst í hruninu var þetta nokkuð jafnt, karlar og konur sem misstu vinnuna, en af þeim 800 sem hafa misst vinnuna frá 2010 til dagsins í dag eru örugglega um 600 konur,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja.