Óleiðréttur kynbundinn launamunur nemenda sem útskrifaðir eru framhaldsnámi við Háskóla Íslands er 11,9% og hallar þar á konur. Þegar tillit er tekið til aldurs, starfs, deildar við HÍ, yfirvinnu og starfsgeira er munurinn 8,3%.
Þá telja konur frekar en karlar að laun þeirra að loknu meistara- og doktorsnámi séu lægri en væntingar stóðu til.
Þetta kom fram í erindi Andreu G. Dofradóttur, verkefnisstjóra við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, á málþingi á vegum Jafnréttisstofu í morgun en hún fjallaði um kynbundinn launamun háskólamenntaðra eftir útskrift.
Óleiðréttur kynbundinn launamunur, þ.e. munur á tekjum vegna atvinnu karla og kvenna að teknu tilliti til vinnutíma, á Íslandi var 19,9% árið 2013.
Þetta þýðir að laun kvenna á Íslandi voru að jafnaði 80% af launum karlmanna árið 2013.
Þarna er ekki tekið tillit til annarra þátta sem geta haft áhrif. Þegar búið er að leiðrétta launamuninn stendur eftir 8,2% launamunur sem skýrist ekki af eðlilegum ástæðum.
Gerð var könnun meðal fólks sem lauk meistara- og doktorsnámi við Háskóla Íslands rúmu ári eftir útskrift nemendanna úr Háskóla Íslands.
Könnunin leiddi í ljós að óleiðrétt mánaðarlaun ári eftir útskrift voru að meðaltali 576.340 krónur hjá karlmönnum og 484.069 krónur hjá konum. Þetta er um 16% óleiðréttur launamunur.
Þegar launamunurinn hafði verið leiðréttur miðað við vinnutíma var hann um 12%.
Þegar munurinn hafði aftur verið leiðréttur, þ.e. með tilliti til ýmissa eiginleika fólksins, er hann um 8,3%. Þar er miðað við að karlmennirnir séu með 2.903 krónur á tímann og konur 2.556 kr. á tímann og þar eru 240 krónur sem eru óútskýrðar.
Heldur fleiri konur en karlar voru á þessari skoðun að laun þeirra, ári eftir útskrift, væru mun eða heldur lægri en þær væntu.
Andrea sagðist líta svo á að miðað við þessa niðurstöðu hefði verið „slegið á þá mýtu að konur hefðu minni væntingar til launa en karlar“.
Frétt mbl.is: Fleiri gæðastundir með feðrunum.