Minntust upphafs ófriðar

Thomas H. Meister, sendiherra Þýskalands, og Stuart Gill, sendiherra Bretlands, …
Thomas H. Meister, sendiherra Þýskalands, og Stuart Gill, sendiherra Bretlands, draga fána landanna niður í hálfa stöng til minningar um að 100 ár eru frá upphafi fyrri heimsstyrjaldar. Eggert Jóhannesson

Sendiherrar Bretlands og Þýskalands, Stuart Gill og Thomas H. Meister, minntust í gær upphafs fyrri heimsstyrjaldar með því að draga fána landanna, sem flaggað var í heila stöng, niður í hálfa stöng fyrir utan sameiginlega sendiráðsbyggingu Breta og Þjóðverja við Laufásveg klukkan hálftólf í dag.

Hópur gesta fylgdist með athöfninni. Að henni lokinni var efnt til málþings í Þjóðminjasafninu, sem sagnfræðistofnun Háskóla Íslands stóð að í samvinnu við breska sendiráðið og þýska sendiráðið í Reykjaví.

Á málþinginu fjallaði þýski sagnfræðingurinn Christoph Cornelissen, prófessor við Goethe-háskólann í Frankfurt, um deilur um ábyrgð Þjóðverja á heimsstyrjöldinni fyrri. Christopher Coker, prófessor í alþjóðasamskiptum við London School of Economics, fjallaði um áhrif fyrri heimsstyrjaldarinnar og líkur á ófriði milli stórvelda á okkar tímum.

Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, fjallaði um samskipti Íslendinga við Breta og hvernig í heimsstyrjöldinni fyrri kom upp svipuð staða og þegar Bretar tóku stjórn Íslandsverslunarinnar í sínar hendur í Napóleonsstríðunum. Bretar vildu ekki hleypa íslenskum útflutningsvörum til óvinarins og Íslendingar voru neyddir til að skrifa undir verslunarsamninga við Breta sem urðu aðalviðskiptavinir Íslands. 

Guðmundur Jónsson, sagnfræðiprófessor við Háskóla Íslands, fjallaði um það hvernig hervæðing þjóðanna, sem börðust í fyrri heimsstyrjöld, hafði áhrif á íslenskt efnahagslíf og þjóðlíf.

Ólafur Arnar Sveinsson, doktorsnemi við Háskóla Íslands, flutti fyrirlestur undir heitinu Tekist á um sjálfsmyndir og hollustu. Stríðsþáttaka hermanna af íslenskum ættum í kanadíska hernum. Í fyrri heimsstyrjöldinni gengu um þúsund manns af íslenskum ættum í kanadíska herinn. Ólafur fjallaði um umræðu um þátttöku innflytjendanna og afkomenda þeirra í styrjöldinni, sem var að mörgu leyti umdeild og einkum sveipuð áróðri og þjóðernishyggju vestan hafs.

Valur Ingimundarson, prófessor í samtímasögu við Háskóla Íslands, fjallaði um þær breytingar sem orðið hafa í evrópskri sagnaritun um fyrri heimstyrjöldina frá því ófriðnum lauk. Valur kom víða við og vék meðal annars að hlutverki sagnfræðinga og stefnum og straumum í stjórnmála-, hernaðar-, félags- og menningarsögu. 

Hópur gesta fylgdist með athöfninni fyrir utan sameiginlega sendiráðsbyggingu Breta …
Hópur gesta fylgdist með athöfninni fyrir utan sameiginlega sendiráðsbyggingu Breta og Þjóðverja við Laufásveg. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert