„Ég veit ekki til þess að það séu vélbyssur í lögreglubifreiðum og ég veit ekki til þess að það standi til að setja vélbyssur í lögreglubifreiðar.“
Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra við fjölmiðla eftir ríkisstjórnarfund í dag spurður um afstöðu hans til þeirrar ákvörðunar að útvega lögreglunni og Landhelgisgæslunni mikinn fjölda vélbyssa frá Noregi en fram hefur komið í fjölmiðlum að hugmyndir séu uppi um að koma hluta þeirra fyrir í lögreglubifreiðum.
„Mér finnst þessi umræða hafa farið út um víðan völl að ósekju,“ sagði hann. „Staðreyndin er sú að það eru einingar í stjórnkerfinu hjá okkur, eins og hjá Landhelgisgæslunni og Ríkislögreglustjóra, sem þurfa að hafa ákveðinn viðbúnað. En engar nýjar ákvarðanir hafa verið teknar, það hefur engin ný stefna verið innleidd. Það er hins vegar búið að þyrla upp ótrúlegu moldviðri af lítilli ástæðu.“