Ríkissaksóknari ætlar að taka til rannsóknar ætluð brot vegna leka trúnaðargagna um samkeppnismál til Kastljóss. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Kastljós fjallaði um kæru Samkeppniseftirlitsins til embættis sérstaks saksóknara vegna meintra samkeppnislagabrota Eimskips og Samskipa í síðustu viku. Þar kom fram að Samkeppniseftirlitið hefði kært ellefu starfsmenn fyrirtækjanna tveggja til sérstaks saksóknara auk þess sem meintum brotum var lýst.
Eimskip sagði í gær að búið væri að kæra leka á rannsóknargögnum til lögreglu, en félagið segir að lekinn hafi skaðað ímynd félagsins.
„Leki á trúnaðargögnum skráðra félaga varðar við lög um verðbréfaviðskipti. Eimskipafélagið hefur nú óskað eftir því við Kauphöll Íslands og Fjármálaeftirlitið að skoðuð verði viðskipti með bréf félagsins á þeim tíma sem það hefur verið til skoðunar hjá Samkeppniseftirlitinu. Jafnframt hefur félagið kært lekann til lögreglu,“ sagði Eimskip í tilkynningu.