Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, og Sigurður Bessason, formaður Eflingar, verða 1. og 2. varaforseti Alþýðusambands Íslands. Þau voru ein í kjöri til embættanna á 41. þingi ASÍ og voru því sjálfkjörin.
Þing ASÍ samþykkti í gær að breyta lögum sambandsins á þá leið að varaforsetum þess yrði fjölgað úr einum í tvo. Því er nú í fyrsta skipti kosið til tveggja embætta varaforseta.
Í máli Ólafíu eftir að kjör hennar sem 1. varaforseti lá fyrir kom fram að hún hefði gefið kost á sér til þess að breikka forystusveit sambandsins. Mikilvægt væri að formenn stærstu stéttarfélaganna væru í framlínu verkalýðsbaráttunnar til að gefa henni breidd og gefa félagsmönnum greiðari aðgang að borði forystunnar.
Sigurður sagðist ekki áður hafa séð ástæðu til að leita í fremstu röð ASÍ eða Starfsgreinasambandsins. Atburðir síðasta vetrar hafi hins vegar misboðið honum algerlega sem formanni stéttarfélags fyrir hönd allrar verkalýðshreyfingarinnar. Gagnrýndi hann stjórnmálamenn fyrir að telja sig geta afgreitt út af borðinu ályktanir ASÍ sem mál eins manns, forsetans Gylfa Arnbjörnssonar.
„Þegar við tölum innan ASÍ er það niðurstaða okkar saman sem á að bergmála inni í íslensku samfélagi,“ sagði Sigurður og uppskar dynjandi lófatak.