Lýstar kröfur í þrotabú lögaðila í ár nema um 187,3 milljörðum króna og 103 milljörðum hjá einstaklingum.
Þetta kemur fram í samantekt Creditinfo sem unnin var að beiðni Morgunblaðsins. Kröfurnar koma fram þegar skiptalok þrotabúa hafa verið birt í Lögbirtingablaðinu.
Samanlagt eru lýstar kröfur hjá lögaðilum frá ársbyrjun 2010 um 882,5 milljarðar og um 152,6 milljarðar hjá einstaklingum. Það eru samtals um 1.035 milljarðar.
Til samanburðar er áætlað í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 að tekjur ríkisins verði 644,5 milljarðar á næsta ári. Samanlagðar kröfur á tímabilinu færu því langt með að reka ríkissjóð í tvö ár.
Jóhannes Stephensen, vörustjóri hjá Creditinfo, segir búskipti taka mismunandi langan tíma. Þau taki yfirleitt ekki meira en hálft ár. Stór og flókin mál geti tekið lengri tíma.
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, segir þessar tölur sýna að „umtalsverður hluti af atvinnulífinu og fyrirtækjum noti gjaldþrot sem aðferð til þess að hreinsa sig af skuldum og ábyrgðum og koma sér þannig undir skyldum sínum gagnvart samfélaginu“.