Verði alþjóðlega íslenska skipaskráin gerð samkeppnisfær miðað við önnur ríki mun þekking á kaupskipaútgerð hér á landi aukast, fleiri störf munu skapast og meðalaldur hérlendra skipverja líklega lækka. Eins og staðan er í dag er þekkingin á kaupskipaútgerð hér á landi hins vegar að tapast ólíkt því sem gerist hjá nágrannaþjóðum Íslendinga sem hafa aukið þekkingu sína í þeim efnum.
Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir Íslandsstofu og lokið var við í síðasta mánuði. Rakinn er aðdragandi þeirrar stöðu sem verið hefur uppi undanfarin ár að kaupskip íslenskra skipaútgerða eru skráð erlendis og sigla þar af leiðandi ekki undir íslenska fánanum. Þá eru engin erlend kaupskip skráð hér á landi. Rifjað er upp að árið 1987 hafi 50 kaupskip verið í eigu Íslendinga og þar af hafi 37 siglt undir íslenskum fána. Veruleg fækkun varð í þeim efnum á 10. áratug síðustu aldar og síðasta skipið hvarf af íslensku skránni skömu eftir síðustu aldamót.
Talin fela í sér ólögmætan ríkisstuðning
Síðasta kaupskipið sem skráð var hér á landi var olíuskipið Keilir en það var flutt á færeyska skipaskrá árið 2004. Öll flutningaskip Samskipa og Eimskips eru skráð erlendis af hagkvæmnisástæðum. Meðal annars í Færeyjum. Það var ekki fyrr en 2007 sem sett voru lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá ásamt lögum um skattlagningu kaupskipaútgerðar. Tilgangur laganna var að gera skipaskrána samkepphishæfa við það sem gerðist í nágrannalöndunum og stuðla þannig að því að kaupskip yrði skráð á Íslandi. Íslensk sem erlend.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði hins vegar ýmsar athugasemdir við síðarnefndu lögin um skattlagningu kaupskipaútgerða og komst meðal annars að þeirri niðurstöðu að þau fælu í sér ólögmætan ríkisstuðning samkvæmt EES-samningnum sem Ísland er aðili að. Lögin voru í kjölfarið felld úr gildi. Ekki hefur verið hreyft við málinu síðan og hafa engin skip verið skráð í íslensku alþjóðlegu skipaskrána til þessa líkt og mbl.is fjallaði um í sumar.
Bjóða upp á mjög hagstætt skattaumhverfi
Fram kemur í skýrslunni að skynsamlegt væri að fara að fordæmi annarra ríkja sem fengið hafi staðfestingu á fyrirkomulagi kaupskipaskráningar frá Evrópusambandinu eða Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Líkt og til að mynda Norðmenn hafa gert sem eru aðilar að EES-samningnum eins og Íslendingar. Færeyingar væru hins vegar í sterkari samkeppnisstöðu en Íslendingar og Norðmenn þar sem þeir standi bæði utan við Evrópusambandið og EES-samninginn.
„Færeyjar hafa sterkari samkeppnisstöðu en Ísland og Noregur þar sem Færeyjar eru hvorki innan EES né Evrópusambandsins. Þeir þurfa því ekki að innleiða sömu reglur og t.d. Ísland og Noregur,“ segir þannig í skýrslunni. Fyrir vikið hafi Færeyingar fullt frelsi til þess að setja eigin reglur í þeim efnum. Þeir bjóði upp á mjög hagstætt skattaumhverfi sem ekki er háð því að skip sigli undir þarlendum fána. Hátt í eitt hundrað skip eru skráð á færeysku alþjóðlegu skipaskrána eins og mbl.is hefur áður fjallað um.
Hætta á að Ísland missi af mörgum tækifærum
Líklegt er að viðskiptatækifæri í tengslum við siglingar til og frá Íslandi eigi eftir að aukast á næstu árum og áratugum segir ennfremur í skýrslunni fyrir Íslandsstofu og áfram: „Ljóst er að með því að hafa ósamkeppnisfæra skipaskrá mun Ísland missa af mörgum tækifærum. Við stöndum frammi fyrir tveimur valkostum. Annar er að gera ekki neitt, en hinn er að gera íslenska alþjóðlega skipaskrá samkeppnishæfa við aðrar skipaskrár. Ljóst er að Færeyjar eru í sterkari samkeppnisstöðu en Ísland, Noregur og Evrópusambandið.“
Vísað er í því sambandi meðal annars til opnunar nýrra siglingaleiða um Norðurheimskautið. Sömuleiðis hafi opnast ný tækifæri í tengslum við námavinnslu á Grænlandi. Ísland hafi verið nefnt sem ákjósanleg umskipunarhöfn í þeim efnum sem og birgðastöð vegna skorts á landrými og mannafla á Grænlandi auk veðurfars. Þá megi nefna mögulega olíuvinnslu á Drekasvæðinu sem gæti opnað mörg tækifæri í siglingum.
„Hvort kaupskip verði skráð á íslenska alþjóðlega skipaskrá í framtíðinni er óljóst. Hins vegar er ljóst að ef skráin verður ekki gerð samkeppnishæf þá mun Ísland áfram vera siglingaþjóð án kaupskipa,“ segir að lokum.
Frétt mbl.is: Vilja skrá skipin á Íslandi