Engin töfralausn til fyrir heilsuna

Tim Caulfield prófessor.
Tim Caulfield prófessor. mbl.is/Árni Sæberg

kanadíski Lagaprófessorinn Timothy Caulfield hefur alfarið snúið sér að lýðheilsurannsóknum. Hann var staddur í Háskóla Íslands á dögunum þar sem hann ræddi gagnsemi erfðaprófa og birtingarmynd þeirra í dægurmenningu og fjölmiðlum. Hann telur líklegt að væntingar til notagildis slíkra prófa hafi verið of miklar. 

Ekki er ýkja langt síðan erfðamengi mannsins var raðgreint en raðgreiningu þess lauk í apríl árið 2003. Væntingar jafnt almennings sem vísindasamfélagsins til margþætts notagildis þekkingarinnar voru gríðarlegar. Margir sáu jafnvel fyrir sér að svo snemma sem árið 2010 byggi hver heimilislæknir yfir tækni og þekkingu til að veita öllum sjúklingum sínum einstaklingsmiðaða læknisþjónustu byggða á erfðamengi hvers og eins. Sem flestum er kunnugt hefur þetta þó ekki enn orðið raunin. Áhugasömum hefur hins vegar síðustu ár staðið til boða að leita til fyrirtækja sem bjóða einstaklingum upp á raðgreiningu erfðamengis með það í huga að meta hvort viðkomandi eigi meira eða minna á hættu en meðalmaðurinn að þróa með sér hina ýmsu algengu sjúkdóma, s.s. Alzheimers, MS, ýmsar tegundir krabbameins og hjarta- æðasjúkdóma. Svör við slíkum erfðaprófum eru vanalega gefin í líkum og prósentum og er tilgangurinn sá að þeir einstaklingar sem komast að því að þeir séu í áhættuhópi fyrir tiltekna sjúkdóma, endurskoði lifnaðarhætti sína í samræmi við það og geti þannig með fyrirbyggjandi aðgerðum minnkað líkur á því að greinast með þá sjúkdóma. Erfðapróf sem þessi hafa þó sætt gagnrýni fyrir ýmsar sakir.

Timothy Caulfield, sem hefur sérhæft sig í lýðheilsu og lífsiðfræði og er prófessor við lagadeild háskólans í Alberta í Kanada, var staddur hérlendis nýlega og flutti opið erindi á vegum Siðfræðistofnunar um erfðapróf og einstaklingsmiðaða heilbrigðisþjónustu. Fyrirlesturinn nefndist „Is Personalized Medicine Really the Answer? Mapping the Benefits and Limits of Using Genetic Testing to Improve Your Health“ og miðaði að því að athuga raunverulega gagnsemi erfðaprófa í nútímalæknisfræði. Í fyrirlestrinum fór Caulfield yfir birtingarmynd hátækniaðferða líkt og erfðaprófa í dægurmenningu og fjölmiðlum og snerti á því að líklega hefðu væntingar til notagildis erfðaprófa verið alltof miklar. Þetta er sér í lagi athugunarvert þegar haft er í huga að niðurstöður erfðaprófa hafa ekki reynst hafa sérstakt forspárgildi hvað varðar algenga sjúkdóma, líkt og hjarta- og æðasjúkdóma og krabbamein, en á þeim vettvangi voru prófunum einmitt ætlaðir stórir sigrar.

Hvernig kom það til að prófessor í lögfræði fór að velta fyrir sér lýðheilsu?

„Ef satt skal segja þá lít ég varla lengur á mig sem lögfræðing, heldur þverfaglegan rannsakanda. Ég er heppinn að því leyti að ég er með mjög gott þverfaglegt teymi sem vinnur með mér að rannsóknum, því sumar rannsóknirnar eru þess eðlis að ég hefði ekki kunnáttuna sem þyrfti til að standa að þeim einn. Ég hóf ferilinn innan háskólasamfélagsins sem mun hefðbundnari lagaprófessor en fór síðan að velta fyrir mér vandamálum er tengjast stefnu í heilbrigðismálum og athuga hvaða þekking þarf að vera til staðar í samfélaginu til að leysa slík vandamál. Þannig leiddist ég inn á þessa braut og ég er mjög ánægður með það í dag. Ég hef líka fundið fyrir því að það getur hjálpað til að standa utan við það sem ég er að rannsaka hverju sinni. Ég horfi á vandamál og gögn úr fjarlægð og það gefur mér annað sjónarhorn heldur en þeirra sem lifa og hrærast í faginu dagsdaglega. Ég lít t.d. allt öðrum augum á erfðapróf og mögulega gagnsemi þeirra og takmarkanir en erfðafræðingur myndi gera.“

Komin langt frá kjarnanum

Þú skrifaðir bók.

„Já, það er rétt, ég skrifaði bókina The Cure for Everything! sem ætluð er almenningi. Bókin er sérstök að því leyti að ég prófaði að haga mínum eigin lífsstíl eftir því sem ég var að skrifa um. Þannig að ég prófaði alla kúrana, gerði allar æfingarnar og ferðaðist meira að segja til Hollywood til að þjálfa með einkaþjálfara stjarnanna. Hugmyndin með bókinni var að komast að sannleikanum hvað varðar allar þær skrýtnu hugmyndir um heilsu og heilbrigði sem dynja á okkur daglega, allt frá hátæknilausnum til undarlegra megrunarkúra. Næsta bók eftir mig mun síðan koma út í janúar og... ég efast um að þú trúir titlinum en ég segi þér hann engu að síður. Bókin á að heita „Is Gwyneth Paltrow wrong about everything“ (í: Hefur Gwyneth Paltrow rangt fyrir sér varðandi allt?) og fjallar um áhrif dægurmenningar á hugmyndir fólks um heilsu og það sem er heilbrigt. Ég talaði við lækni Gwyneth Paltrow, prófaði mataræðið hennar og gerði ýmislegt fleira til að reyna að sjá lýðheilsu í gegnum glugga dægurmenningarinnar. Þannig að í báðum þessum bókum er ég að reyna að taka eins marga vinkla til greina og ég get og finna nýjar leiðir til að segja almenningi hvað vísindin eru í raun að segja okkur um málefni eins og heilbrigði. Mér finnst við sem samfélag nefnilega oft komin mjög langt frá kjarna málsins þegar kemur að heilsu. Þetta er einfalt, heilsa snýst um hreyfingu, gott mataræði, að sleppa reykingum og drekka í hófi. Það er engin töfralausn.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert