Tveir sólríkir dagar eru í vændum á Suðurlandi samkvæmt spá Veðurstofu Íslands. Kuldinn er þó skollinn á um land allt og verður hitinn rétt í kringum frostmark um allt land. Um miðja viku virðist blíðviðrið færast norðar og Norðurland fær að njóta sólarinnar um skeið.
Á morgun verður léttskýjað eða heiðskírt á Suðurlandi og hitinn rétt yfir frostmarki. Á Norðurlandi verður skýjað og snjór eða rigning á köflum, en það ræðst af hitastiginu hvernig úrkoman verður því hitastigið verður í kringum núll gráður.
Á þriðjudaginn fer sólin að teygja sig vestar og hálf- eða léttskýjað verður á Vesturlandi. Áfram verður þó úrkoma á Norður og Norðausturlandi og hálfskýjað víða á Suðurlandi.
Á miðvikudag verður skýjað á Suðurlandi en hálf- eða léttskýjað á Norður- og Norðausturlandi áður en skýin færast yfir allt land á fimmtudag.
Sjá veðurspána á veðurvef mbl.is