„Það er grunnatriði í öllu kerfinu að allri bráð sem ekki getur beðið ber að sinna,“ segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, en fyrsti liður í verkfallsaðgerðum lækna hefst á miðnætti í kvöld. Þorbjörn segir sjúklinga geta búist við óþægindum vegna verkfallsins en fullyrðir að öryggi sjúklinga verði tryggt.
Síðasta samningafundi Læknafélags Íslands og samninganefndar ríkisins, sem fór fram á fimmtudag, lauk án niðurstöðu. Næsti fundur í kjaradeilunni hefur verið boðaður á morgun klukkan 16 og er því ljóst að læknar munu hefja verkfall á miðnætti. Á níunda hundrað lækna samþykktu verkfallsboðun og stefnir í að flestir leggi niður störf tímabundið, en þó ekki allir á sama tíma. Það eru hins vegar á þriðja hundrað lækna á sérstökum undanþágum frá verkfalli.
Á miðnætti í kvöld mun heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins fara í verkfall, og gert er ráð fyrir því að bókaðir tímar sem ekki eru bráðir muni falla niður. „Á dagvinnutímum mun yfirlæknir hverrar stöðvar fyrir sig vera til staðar og hann sinnir þeirri þjónustu sem nauðsynleg er á þeim tíma,“ segir Þorbjörn. Þá segir hann sjúklinga geta leitað til læknavaktarinnar í Kópavogi utan dagvinnutíma, eða í brýnum tilvikum á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.
Þá munu rannsóknarsvið og kvenna- og barnasvið Landspítala einnig leggja niður störf á miðnætti. „Þar gildir það sama og á heilsugæslunum. Þar er tiltekinn fjöldi, þar með taldir yfirlæknar, sem eru á undanþágulista og þeir sinna því í dagvinnu sem má telja brýnt.“ Þorbjörn segir það þó fara eftir eðli málsins og vera í höndum hvers og eins læknis að leggja mat á það hvað má telja brýnt.
Einnig fara læknar á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni í verkfall. Þorbjörn segir að það sé misjafnt eftir stofnunum hvernig sjúklingar finni fyrir verkallinu. Á minnstu stofnununum, þar sem séu einn til tveir læknar við störf hverju sinni, verði röskunin minnst.
Aðspurður segir Þorbjörn erfitt að fullyrða um framhald samningaferlisins, en segist „ekkert sérstaklega bjartsýnn á það“ að samningar náist á næstu dögum.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í pistli á vef spítalans á föstudag að yfirvofandi verkfallsaðgerðir Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélag Íslands væru algjörlega nýr veruleiki á spítalanum. Læknar á spítalanum hefðu ekki áður gripið til slíkra aðgerða. Framundan væri því að líkindum veruleg röskun á starfsemi spítalans.