Afskriftir 22 milljarðar á 17 árum

LÍN Lánasjóður íslenskra námsmanna.
LÍN Lánasjóður íslenskra námsmanna. mbl.is/Hjörtur

Gera má ráð fyrir að á næstu 17 árum nemi kostnaður ríkissjóðs í formi afskrifta námslána um 22 milljörðum króna, samþykki Alþingi frumvarp Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þetta kemur fram í umsögn lánasjóðsins um frumvarpið.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fyrirkomulagi endurgreiðslu námslána. Meðal annars er lagt til að fest verði í lög sú meginregla að greitt skuli af námsláni þar til skuldin sé að fullu greidd eða fram að þeim tíma er lánþegi fellur frá. 

Þá er gert ráð fyrir undantekningum frá framangreindri meginreglu á þann hátt að í tilteknum tilfellum verði heimilt að fella námslán niður að hluta eða í heild áður en lán er að fullu greitt. Þau tilfelli sem hér um ræðir eru annars vegar þegar skuldari á við langvarandi veikindi að stríða, fötlun eða mikla örorku sem áhrif hefur á greiðsluhæfni hans og hins vegar tilfelli þar sem skuldari námsláns hefur náð 67 ára aldri án þess að hafa náð að greiða að fullu niður námslán sitt.

Einnig er í frumvarpinu bráðabirgðaákvæði um að skuldarar sem þegar hafi náð 67 ára aldri við gildistöku laganna skuli fá niðurfelldar eftirstöðvar námslána sinna eins og staða þeirra er við gildistökuna.

800 milljónir á næsta ári

Í umsögn LÍN um frumvarpið segir að verði það að lögum fylgi því verulegur viðbótarkostnaður fyrir ríkissjóð, á hverju ári eftir gildistöku laganna. „Kostnaður ríkissjóðs á fyrsta ári er tæplega 800 m.kr. og fer sú upphæð hækkandi á hverju ári miðað við óbreytta þróun í hækkandi námslánum.“

Þá segir að núverandi stuðningur ríkisins felist í góðum vaxtakjörum og endurgreiðslum sem taka tillit til tekna greiðanda. „Almennt má segja að námstími námslána sé að lengjast og fjárhæð lána námsmanna að hækka sem og aldur námsmanna. Hærri námslán minnka almennt líkur á fullum endurheimtum en afskriftir námslána og vaxtaafsláttur fela í sér verulegan opinberan stuðning við námsmenn. Þetta ásamt fleiri áhættuþáttum eins og niðurfellingu ábyrgðamanna, aukinnar skuldsetningar lánþega vegna námslána sem og annarra skulda greiðenda námslána þýðir að skoða þarf með heildstæðum hætti hvert framlag ríkissjóðs til sjóðsins þarf að vera og þá ekki síður ef gerðar eru breytingar á lagaumhverfi sjóðsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert