Í ár hefur orðið hrun í refastofninum í friðlandinu á Hornströndum. Ester Rut Unnsteinsdóttir, stofnvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, hefur farið á Hornstrandir í 16 ár að fylgjast með refum og telja greni og hún hefur aldrei áður fundið eins mörg dauð dýr.
„Í veiðiskýrslum frá áttunda áratugnum finna grenjaskyttur tvö dauð dýr eitt vorið sem þótti merkilegt, en ég fann 10 dauð dýr. Það er margt líkt aðstæðum nú og þá. Veturinn var mjög snjóþungur og það leysti seint og greni lengi að koma upp úr snjó og þau mjög blaut sem er slæmt fyrir refinn,“ segir Ester Rut, í samtali við Bæjarins besta.
Ester skoðaði 47 greni í sumar og einungis fjórðungur var í ábúð og mikill yrðlingadauði. „Ég sá mjög vannærða yrðlinga og fá fuglahræ við grenin, mun minna en sést venjulega og það gefur til kynna að fæðuframboðið hafi verið lítið,“ segir hún.
Tvö dýr sem hún fann báru merki þess að þau hefðu drepist í snjóflóði.