„Þetta var klukkutíma fundur og á honum voru viss tæknileg atriði samningsins rædd en við komumst þó ekkert lengra með neinar launakröfur svo þetta var árangurslaust,“ segir Sigurveig Pétursdóttir, formaður samninganefndar Læknafélags Íslands, í samtali við mbl.is en fundur í kjaradeilu lækna fór fram í húsakynnum Ríkissáttasemjara fyrr í dag.
Spurð hvort uppi sé vilji til þess að ræða hlutina í von um að finna lausn deilunnar kveður Sigurveig já við. „Það vilja í raun allir semja en það er nú samt langt í land.“
Til stendur að funda næstkomandi miðvikudag klukkan 15.
Skömmu fyrir fundinn í dag, sem hófst klukkan 16, sagði Sigurveig það dapurlegt að læknar væru nú komnir í verkfall.