Læknar biðja þjóðina um stuðning

Í auglýsingunni er þjóðin beðin um stuðning og þeir sem …
Í auglýsingunni er þjóðin beðin um stuðning og þeir sem munu fá skerta þjónustu á meðan á verkfallsaðgerðunum stendur eru beðnir um skilning mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Verkfall lækna hefst í dag. Því miður. Læknar á Íslandi hafa í fyrsta sinn gripið til þess réttar síns að leggja niður störf til að knýja á um leiðréttingu launa sinna.“ Svona hefst auglýsing sem birt er á heilsíðu í Morgunblaðinu í dag en undir textann skrifar Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands.

Í auglýsingunni er þjóðin beðin um stuðning og þeir sem munu fá skerta þjónustu á meðan á verkfallsaðgerðunum stendur eru beðnir um skilning. Þá er skorað á stjórnvöld að bregðast hratt við, leiðrétting á launum lækna þoli enga bið.

„Kjarabarátta lækna snýst ekki bara um laun heldur einnig um eðlilega endurnýjun í læknastéttinni. Á undanförnum árum höfum við misst lækna úr landi. Það er mikil blóðtaka fyrir okkur öll. Meðalaldur lækna á Ísland hækkar. Nýliðun í hópnum er nauðsyn. Augljóst er að í óefni stefnir ef fram heldur sem horfir,“ segir í auglýsingunni.

Bregðast við af alefli

„Stærsti þáttur alþjóðlegrar samkeppnishæfni í starfsumhverfi lækna er laun þeirra. En fleira kemur til. Á meðal þess er vinnuálag, aðgengi að góðum tækjabúnaði, svigrúm til kaupa á nýjustu og bestu lyfjum, þátttaka í framþróun læknavísindanna og fleira. Á öllum þessum sviðum hafa Íslendingar dregist aftur úr og bilið fer ört stækkandi.“

„Læknar bera ekki ábyrgð á heilbrigðisþjónustunni á Íslandi. Okkur er hins vegar langt í frá sama um hana. Í gegnum tíðina höfum við bæði axlað þá ábyrgð sem einstaklingar og sem heild eftir því sem í okkar valdi hefur staðið. Við viljum gera það áfram. Þess vegna grípum við til aðgerða. Við teljum það ábyrgðarleysi af okkar hálfu að bregðast ekki við af alefli við þeim vanda sem við blasir,“ segir í auglýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert