Myndband sem sýnir Magnús Braga Magnússon, hrossaræktanda á Íbishóli í Skagafirði, ríða graðhesti berbakt og án beislis hefur vakið mikla athygli. Myndbandið birtist fyrst á Facebook síðu Íbishóls þann 9. október síðastliðinn og þegar þetta er skrifað hefur verið horft á myndbandið vel yfir 40 þúsund sinnum og 535 hafa deilt því á eigin síður.
„Hann hefur náttúrulega alla tíð verið rosalega ljúfur,“ segir Magnús um graðhestinn Óskastein. Graðhestar eru yfirleitt afar viljugir og fjörugir og segir Magnús það fyrst og fremst vera geðslag Óskasteins sem gerir það að verkum að hann lætur svo vel að stjórn. Í myndbandinu er Óskasteinn einungis með hefðbundinn stallmúl sem ekki hjálpa knöpum að stýra hestum sínum.
Óskasteinn er fæddur 2005 og segir Magnús hann vera kominn af góðum hestum með afar góðar einkunnir af hestasýningum. Óskasteinn hefur hinsvegar skotið báðum foreldrum sínum ref fyrir rass því hann var fyrsti hesturinn í heiminum sem fékk einkunnina 9,5 fyrir hægt tölt, 9,5 fyrir tölt og 9,5 fyrir skeið á sömu sýningunni. Þá kemur það líklega fæstum sem séð hafa myndbandið á óvart að Óskasteinn er með einkunnina 10 fyrir vilja og geðslag.
„Þetta hefur vakið mjög mikla athygli en maður átti ekkert von á því,“ segir Magnús um viðbrögðin. Hann segir eiginkonu sína Elisabeth Janssen, eiga allan heiðurinn að því að hafa komið Óskasteini á framfæri með þessum hætti enda hafi honum sjálfum hreint ekki dottið í hug að taka upp myndband af sér á hestinum.
„Þetta er nú bara býsna venjulegt fyrir mér, ég hoppa á hann án beislis að gamni mínu hvenær sem er. Það eru náttúrulega bara forréttindi að fá að kynnast svona hesti og hvað þá að fá að rækta hann og eiga.