Loftgæðin eru ágæt eins og stendur á Höfn í Hornafirði en fastlega er gert ráð fyrir að mengun eigi eftir að aukast þar í dag. Í gær fóru gildin yfir hættumörk og var ákveðið að foreldrar ættu að keyra börn í skóla í dag og fólki ráðlagt að halda sig innandyra. Þessi ákvörðun stendur, að sögn varðstjóra í lögreglunni á Höfn.
Hann segir að lögreglan hafi farið um umdæmið í nótt með færanlegan mæli til þess að fylgjast með brennisteinsdíoxíðsmengun frá eldgosinu í Holuhrauni. Mengunin hefur verið upp og niður en einna mest undir jöklum.
Miðað við veðurspána má búast við aukinni mengun á Höfn og nágrenni og í nótt mældust mengunargildin allt upp í 4,4 ppm, eða yfir 13 þúsund míkrógrömm á rúmmetra í Suðursveit og við Jökulsárlón.
Lögreglan mun fylgjast grannt með í allan dag á Höfn og í nágrenni.
Rétt fyrir klukkan 07:00 í morgun mældist SO2-mengun 1200 míkrógrömm á rúmmetra á Höfn í Hornafirði. Rétt áður mældist mengun á Mýrum og í Suðursveit á bilinu 4200-6600 míkrógrömm á rúmmetra. Íbúar svæðisins eru hvattir til þess að fylgjast vel með frekari fréttum og kynna sér vel leiðbeiningar yfirvalda sem finna má á síðu almannavarna, segir í tilkynningu á facebooksíðu almannavarna.
Í dag (mánudag) má búast við gasmengun austur og suðaustur af gosstöðvunum, frá Héraði suður að Jökulsárlóni.
Á morgun (þriðjudag) er spáð ákveðinni norðanátt og því líkur á gasmengun suður af gosstöðvunum.