„Er verkfallið okkar kannski kærkomin búbót fyrir sveitarfélögin í lok fjárhagsárs?“ spyr Sigrún Grendal Jóhannsdóttir, formaður Félags tónlistarskólakennara, FT, en félagsmenn hafa verið í verkfalli síðan á miðvikudaginn í síðustu viku.
Fundur félagsins og samninganefndar sveitarfélaganna í gær bar engan árangur. Félagið er eitt aðildarfélaga Kennarasambands Íslands og fer fram á sömu hækkanir og félagsmenn annarra félaga sambandsins hafa fengið á undanförnum mánuðum.
Í umfjöllun um deiluna í Morgunblaðinu í dag segir formaður samninganefndar sveitarfélaganna ljóst, að engar slíkar hækkanir verði nema FT sé reiðubúið til svipaðrar endurskoðunar og einföldunar á kjarasamningum og vinnuumhverfi og gerðar hafa verið á samningum Félags grunnskólakennara.