Tveir alþingismenn eru á meðal níu þingmanna norrænna miðju- og vinstriflokka sem hafa lagt fram tillögu á þingi Norðurlandaráðs sem hófst í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, í dag þar sem lagt er til að unnið verði áfram með hugmynd um norrænt sambandsríki. Þingmennirnir tveir eru Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, og Róbert Marshall, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Vísað er í tillögunni til hugmyndar Gunnars Wetterberg um slíkt ríki sem hann setti fram í bókinni Sambandsríki Norðurlanda sem kom út fyrir nokkrum árum. Þingmönnunum sé hugleikið að sú hugmynd falli ekki í gleymsku. Margar að þeim hugmyndum sem fram komi í bókinni séu vel þess virði að lagt verði frekara mat á þær og þær greindar. Bent er á að um þessar mundir sé unnið að því að draga úr stjórnsýsluhindrunum á milli Norðurlandanna.
„Besta lausnin á stjórnsýsluhindranavandanum er norrænt sambandsríki/ríkjasamband og aukið svæðisbundið samstarf af ýmsu tagi. Þangað erum við ekki komin ennþá, en skoða þarf spurninguna um norrænt sambandsríki einnig í því ljósi.“ Þá segir að áhugavert væri að móta nánari tillögur um það hvernig norrænt sambandsríki/ríkjasamband gæti litið út sem og ýmsar gerðir nánara svæðisbundins samstarfs. Meðal annars í tengslum við þing norrænu ríkjanna.
„Tillöguna væri síðan hægt að leggja til grundvallar pólitískri umræðu, ekki aðeins í Norðurlandaráði heldur einnig í þjóðþingunum. Við teljum að umræða sem byggir á skýrum tillögum geti rutt veginn fyrir þróun stjórnskipulegra málefna á Norðurlöndum. Við erum sannfærð um að slík framtíðarumræða geti hleypt nýju lífi í stjórnmálaumræðu á öllum Norðurlöndum.“
Auk Steingríms og Róberts standa að tillögunni Anders Eriksson þingmaður Framtíðar Álandseyja, Christian Beijar þingmaður Jafnaðarmannaflokks Álandseyja, Christina Gestrin þingmaður Sænska þjóðarflokksins í Finnlandi, Finn Sørensen þingmaður Einingarlistans í Danmörku, Helgi Abrahamsen þingmaður Sambandsflokksins í Færeyjum, Høgni Hoydal þingmaður Þjóðveldis í Færeyjum og Torgeir Knag Fylkesnes þingmaður Sósíalíska vinstriflokksins í Noregi.