Lögreglan var kölluð út í verslun við Seljaveg í Reykjavík skömmu fyrir eitt í nótt vegna ungs manns sem var í mjög annarlegu ástandi og lagstur til svefns í versluninni. Maðurinn var aðeins íklæddur buxum og sokkum.
Maðurinn var handtekinn og færður í lögreglubifreið þar sem hann fór skyndilega að tala við sæti lögreglubifreiðarinnar. Hann gat ekki verið kyrr í eina sekúndu og öskraði hástöfum og var hann andlega fjarverandi og greinilega með ranghugmyndir. Ekki var hægt að fara með hann þangað sem hann óskaði í þessu ástandi og því farið með hann á lögreglustöð.
Á leiðinni tók hann svo öryggisbeltið og talaði í það eins og síma. Tekin var ákvörðun um að hann yrði vistaður í fangaklefa sökum ástands en hann var ekki talinn hæfur til þess að vera á götum borgarinnar, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.