„Það hefur komið á óvart hve margar tegundir heimsækja garða að vetri. Það hafa sést yfir 80 fuglategundir í görðum hjá athugendum,“ sagði Ólafur Einarsson líffræðingur.
Um er að ræða bæði staðbundna fugla, farfugla og einnig flækingsfugla. Einn veturinn voru t.d. uglur áberandi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.
Árleg garðfuglakönnun Fuglaverndar hófst 26. október og stendur til 25. apríl. Félagsmenn í Fuglavernd og áhugasamir fuglaskoðarar fylgjast þá með og skrá fugla sem koma í garða. Markmiðið er að athuga hvaða fuglategundir heimsækja garðana, hve margir fuglar koma og hvernig samsetning tegundanna breytist yfir vetrarmánuðina. Niðurstöðurnar eru svo bornar saman við fyrri ár.