„Þetta er gríðarlegur heiður og ég er ótrúlega stoltur,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í samtali við mbl.is en Reykjavík hlaut í dag náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandarás 2014 sem afhent voru við hátíðlega athöfn í Stokkhólmi.
Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a. að Reykjavíkurborg fái verðlaun þessi „fyrir víðtækt og markvisst starf sveitarfélagsins að umhverfismálum. Það sama má segja um ýmsa aðra af þeim sem tilnefndir voru, en Reykjavíkurborg hefur einnig gert ýmislegt sem hún er ein um og sem getur orðið öðrum innblástur.“
Dagur B. segir viðurkenningu þessa til marks um að Reykjavíkurborg sé nú á réttri leið enda Norðurlöndin mjög framarlega þegar kemur að umhverfismálum í heiminum.
„Ástæðan fyrir því að ýmislegt hefur þokast í rétta átt á undanförnum árum er m.a. vegna þess að við erum reiðubúin til að viðurkenna vandamálin og gera betur. Þetta segir okkur að það sem við erum að gera stenst samanburð við það besta og er ég ótrúlega stoltur af því, samstarfsfólki okkar og hinni fjölmennu grasrót sem brennur fyrir umhverfismál og skipulag á Íslandi,“ segir Dagur B.
Frétt mbl.is: Reykjavík verðlaunuð af Norðurlandaráði