Hyggst hætta sem stjórnarformaður FME

mbl.is/Ómar

Stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, Halla Sigrún Hjartardóttir, hefur óskað eftir því við fjármálaráðherra að skipun hennar verði ekki framlengd þegar hún rennur út í lok ársins. þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hún hefur sent á fjölmiðla í kjölfar umfjöllunar um viðskipti hennar. Hún segir ennfremur að henni þyki miður að reynt hafi verið að gera viðskiptamál hennar tortryggileg. Hún hafi ávallt farið eftir gildandi lögum og reglum í fjárfestingum sínum. Hún segir ennfremur rangt að hún hafi hagnast á sölu Skeljungs á síðasta ári líkt og haldið hafi verið fram.

„Ég geri mér grein fyrir því að gerð er rík krafa til einstaklinga sem taka að sér störf á vegum hins opinbera. Á það ekki síst við um formennsku í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Þeir sem taka að sér slík störf þurfa að þola að um þá sé fjallað og geri ég engar athugasemdir við það. Hins vegar finnst mér langt til seilst þegar viðskipti mín eru gerð tortryggileg og fræjum efasemda sáð um heilindi mín. Þegar við bætist að fjölskylda mín er áreitt af fréttamönnum get ég ekki annað en brugðist við,“ segir ennfremur.

Yfirlýsingin í heild:

„Af gefnu tilefni vil ég taka fram að í öllum mínum fjárfestingum hef ég ávallt farið eftir gildandi lögum og reglum. Ég hef gætt þess að upplýsa alla hlutaðeigandi aðila um þátttöku mína í íslensku atvinnulífi þegar það hefur átt við. Mér þykir miður þegar reynt er að gera þessi persónulegu viðskipti mín tortryggileg, ekki síst þegar gefið er í skyn að ég hafi ekki gætt að hugsanlegum hagsmunaárekstrum í störfum mínum eða jafnvel sagt ósatt. Slíkar ásakanir tek ég alvarlega.

Í umfjöllun fjölmiðla hefur því verið haldið fram að ég hafi verið hluthafi í Skeljungi og hagnast á sölu félagsins seint á síðasta ári. Þetta er ekki rétt. Ég keypti hlut í færeyska olíufélaginu P/F Magn í gegnum eignarhaldsfélagið Hedda ehf. sumarið 2011. Íslandsbanki, þar sem ég starfaði áður, hafði ekkert með þessi viðskipti að gera enda var P/F Magn keypt af þrotabúi Fons eignarhaldsfélagi. Hlut minn í Heddu ehf. keypti ég af eigendum Skeljungs. Eigendur Skeljungs tóku síðar þá ákvörðun að Skeljungur eignaðist hlut þeirra í Heddu ehf., og greiddi með bréfum í félaginu. Þótt bréf í Skeljungi væru í eigu Heddu ehf. voru þau séreign eigenda Skeljungs. Ég átti aldrei hlut í Skeljungi, né hafði ég nokkurn tíma fjárhagslegan ávinning af því félagi.

Ég hef kosið að ræða ekki persónuleg fjármál við fjölmiðla. Hins vegar hef ég ávallt upplýst alla sem eiga hagsmuna að gæta um aðkomu mína að þessum viðskiptum og öðrum. Á það við um fyrrum vinnuveitendur og þegar ég settist í stjórn Fjármálaeftirlitsins í desember 2013, þegar farið var ítarlega yfir öll mín umsvif og engu haldið eftir.

Ég geri mér grein fyrir því að gerð er rík krafa til einstaklinga sem taka að sér störf á vegum hins opinbera. Á það ekki síst við um formennsku í stjórn Fjármálaeftirlitsins. Þeir sem taka að sér slík störf þurfa að þola að um þá sé fjallað og geri ég engar athugasemdir við það. Hins vegar finnst mér langt til seilst þegar viðskipti mín eru gerð tortryggileg og fræjum efasemda sáð um heilindi mín. Þegar við bætist að fjölskylda mín er áreitt af fréttamönnum get ég ekki annað en brugðist við. Ég hef því tilkynnt fjármálaráðherra að ég muni ekki óska eftir því að skipun mín sem stjórnarformanns Fjármálaeftirlitsins verði framlengd þegar hún rennur út í lok árs.“

Halla Sigrún Hjartardóttir stjórnarformaður FME.
Halla Sigrún Hjartardóttir stjórnarformaður FME.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert