Hross í oss fékk verðlaun Norðurlandaráðs

Benedikt Erlingsson, leikstjóri og handritshöfundur, og Friðrik Þór Friðriksson framleiðandi tóku á móti Kvikmyndaverðlaunum Norðurlandaráðs 2014 fyrir myndina „Hross í oss“ við verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Stokkhólmi nú í kvöld.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs nema 350 þúsund dönskum krónum. Þau voru afhent af verðlaunahafa síðasta árs, Sisse Graum Jørgensen, í ráðhúsinu í Stokkhólmi. 

Í rökstuðningi dómnefndar segir að kvikmyndin sé sérlega frumleg með rætur í kjarnyrtum húmor Íslendingasagnanna. Þá segir að leikstjórinn hafi djúpan skilning á frumkröftum hrossa og manna.

„Með því að nota augnaráð skepnu sem eitt helsta sjónarhornið til að endurspegla grátbroslega hegðun manna fær „Hross í oss“ sérstæðan ljóðrænan blæ en líka svartan spaugsaman tón. Benedikt Erlingsson leikstjóri fléttar saman kraftmikið myndmál, klippingu og tónlist þannig að myndin sjálf verður eins og náttúruafl,“ segir í rökstuðningnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert