„Hvað segir þú? Skotvopnum beitt. OK reyndu að láta lítið fyrir þér fara, sérsveitin er stödd í Mosfellsbæ núna, það tekur þá einhvern tíma að græja sig og keyra í Vesturbæinn. Það er reyndar lögreglubíll í næstu götu við þig en þeir eiga eftir að keyra upp á lögreglustöð og sækja vopn. Þú bara hinkrar.“
Þetta er eitt af ímynduðu dæmunum sem Brynjar Ólafsson tekur í pistli sínum um vopnaburð lögreglumanna. Brynjar, sem er kennari og fyrrverandi lögreglumaður, birti pistilinn á Facebook og hefur hann farið víða í vikunni.
„Mér finnst að þetta eigi að vera tvö aðskilin mál, annarsvegar vopnaburður lögreglumanna og hins vegar hvernig staðið var að þessum kaupum eða gjöfum. Spurningin er hvort þetta klúður verði til þess að dregið verði úr vopnaburði lögreglu,“ segir Brynjar í samtali við blaðamann mbl.is.
Hann segir það vera öryggisatriði að vopnin séu endurnýjuð og að þau séu tiltæk í bílum. „Síðast í sumar var ég að vinna úti á landi og lenti í því að ég þurfti að vopnast. Þess vegna situr þetta svolítið í mér þó svo að ég hafi reyndar ekki nefnt það í þessum pistli því það var eitt af þessum málum sem fór ekki í fréttirnar.“
Auk þessa dæmis tekur Brynjar fram í pistlinum að hann hafi bæði þurft að mæta vopnuðum einstaklingum óvopnaður og þurft að bíða eftir aðstoð frá sérsveit. „...það voru laaaaaaaangar mínútur. Og aftur guði sé lof að aðstæður stigmögnuðust ekki á þeim mínútum því líklega hefði ég ekkert getað gert annað en að keyra í burtu til að tryggja eigið öryggi,“ segir í pistlinum.
„Lögreglan er samt ekki bara að verja sig heldur líka þá sem óska eftir aðstoð lögreglu,“ segir Brynjar. „Það eru ekki bara lögreglumenn sem standa úti í horni úti í sveit sem þurfa að verja sig því þetta er að gerast í kringum fólk. Maður veit líka ekki endilega fyrirfram hvort maður er að fara að mæta einhverjum með byssu í útkalli og þá þarf maður að geta gripið til vopna,“ heldur hann áfram.
Kona Brynjars er starfandi lögreglumaður og hefur hann því bæði upplifað að vera í hættu við skyldustörf og vita af maka sínum í hættu.
„Ég veit að henni er jafn illa við byssur og mér en þegar (frekar en ef) hún verður næst send á vettvang þar sem verið er að beita skotvopnum þá vil ég að hún geti varið sig og þig með einhverju öðru en skrifblokk og vasaljósi,“ skrifar Brynjar í pistlinum. „Á sínum tíma vopnaðist danska lögreglan nánast á einni helgi eftir að lögreglumaður var skotinn til bana. Viljum við bíða eftir því?“
Pistil Brynjars má lesa í heild sinni hér að neðan.