„Farsælasti pylsuvagn heims er ekki eins og margir myndu halda í New York, heldur er hann í miðbæ Reykjavíkur, höfuðborgar Íslands.“
Svona kemst Jason Hesse, blaðamaður tímaritsins Forbes, að orði um Bæjarins beztu pylsur í grein sinni sem birtist á vef Forbes í dag.
Í greinni segir Hesse frá Bæjarins beztu og frá frægðinni sem pylsuvagninn hlaut er Bill Clinton, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, fékk sér pylsu þar árið 2004.
Segir hann jafnframt sögu pylsuvagnsins og að hann hafi staðið nálægt höfninni frá árinu 1937 og kallar hann „sanna íslenska stofnun“. Vitnar hann í eiganda Bæjarins beztu, Guðrúnu Kristmundsdóttur, sem telur að flestir Íslendingar hafi fengið sér pylsu á einhverjum af fjórum pylsuvögnum hennar á landinu. Fullyrðir Hesse jafnframt að það sé alltaf röð við pylsuvagninn þegar hann er opinn.
Hesse segir jafnframt að þó svo að pylsuvagninn hafi ávallt verið vinsæll meðal Íslendinga hafi heimsókn Clintons fyrir 10 árum komið vinsældum hans á annað stig.
María Einarsdóttir, sem seldi Clinton pylsuna frægu, ræddi við Hesse sem kallar hana hvorki meira né minna en frægasta pylsusala heims.
„Hann gekk framhjá og ég þekkti hann strax, þannig að ég kallaði til hans: „Bestu pylsur í heimi!““ rifjaði María upp fyrir Hesse. „Hann ætlaði ekkert að stoppa hér. Og ég held að lífverðir hans hafi ekki verið ánægðir heldur. En hann kom til mín brosandi og spurði hvað ég hefði sagt. Ég endurtók það og bauð honum að smakka.“
Sagði María jafnframt að Clinton hefði ekki viljað pylsu með öllu, heldur aðeins með sinnepi.
„Hann sagðist ekki vilja verða feitur! Þannig að ég gerði auðvitað það sem hann bað um.“