Meirihluti borgarráðs Reykjavíkur samþykkti í gær tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra um að stytta Ásmundar Sveinssonar myndhöggvara af Einari Benediktssyni, ljóðskáldi og athafnamanni, sem staðið hefur á Klambratúni, verði flutt að Höfða, fyrrverandi heimili skáldsins.
Tillagan var lögð fram í tilefni þess að í dag eru 150 ár liðin frá fæðingu Einars Benediktssonar. Í tillögunni segir að þetta sé „í samræmi við áskoranir og erindi aðdáenda skáldsins og tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 28. ágúst sl.“
Reykjavíkurborg mun leggja til helming kostnaðar á móti því sem áhugahópur um málið hyggst safna. Áætlað er að viðgerð, flutningur og frágangur við styttuna á nýjum stað kosti um 15 milljónir króna.