260 kílómetrar í næsta sérsveitarmann

Sérsveitarmenn við Hraunbæ í desember í fyrra.
Sérsveitarmenn við Hraunbæ í desember í fyrra. mbl.is/Rósa Braga

Lögreglan á Þórshöfn greip til skotvopna til að tryggja aðstæður þegar maður gekk um bæinn vopnaður haglabyssu í morgunn. Skotvopnin voru ekki í lögreglubílnum, enda er bíllinn ekki búinn þar til gerðum hirslum, heldur þurfti að sækja skotvopn á lögreglustöðina.

Maðurinn hefur að sögn lögreglunnar á Húsavík áður komið við sögu lögreglu.

260 kílómetrar í sérsveitina

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Húsavík lagði sérsveitin af stað frá Akureyri klukkan 07:29, en maðurinn var handtekinn um klukkan 11 í morgun. Vegalengdin milli bæjanna er um það bil 260 kílómetrar. Eðlilegur aksturstími milli bæjanna er á bilinu þrír og þrír og hálfur klukkutími. Akstursaðstæður í morgun voru að sögn ekki góðar, ísing á vegum og þoka. 

Byssumaðurinn, sem verið var að flytja frá Þórshöfn, er kominn á Húsavík.

„Bæði lögreglan hér frá Húsavík fer vopnuð á staðinn og eins vopnast lögreglan á Þórshöfn. Í svona tilfellum gerum við það,“ segir Aðalsteinn Júlíusson, lögreglumaður á Húsavík. „Síðan tryggjum við lokanir til að tryggja að viðkomandi fari ekki á flakk með byssuna.“

Hann segir þó búnað lögreglunnar til að takast á við aðstæður sem þessar ekki eins og best væri á kosið.

Ekki allir í 101 þar sem eru 10 mínútur í sérsveit

„Við erum bara ekki nógu vel búnir. Skotskýlingarhjálmar eru til staðar en engir skotskýlingarskildir, til þess hafa ekki fengist peningar,“ segir Aðalsteinn. „Þetta er ekki í nógu góðum farvegi. Við erum ekki öll í póstnúmeri 101 þar sem eru 10 mínútur í sérsveit. Við erum oft hérna einir eða tveir saman og viljum geta brugðist við í svona tilvikum þegar fólk röltir út í bæ með vopnin sín. Þá skipta fyrstu viðbrögð öllu,“ segir Aðalsteinn. 

„Við erum ekki með bílana okkar hér á Húsavík búna þannig að við séum með byssugeymslur í þeim. Það eru bara örfáir bílar á landinu sem eru svoleiðis búnir í dag. Ég hefði þess vegna getað verið í Mývatnssveit, þá hefði ég þurft að keyra til Húsavíkur til að sækja byssur og fara síðan aftur austur.

Umdæmi lögreglunnar á Húsavík er mjög stórt. „Ef ég fengi útkall austur á Kópasker og væri staddur á Mývatnsöræfum, t.d. austur á Biskupshálsi, þá á ég eftir að keyra öll Öræfin niður í gegnum Mývatnssveit, á Húsavík og kannski í klukkutíma austur á Húsavík,“ segir Aðalsteinn. Vegalengdin segir hann að geti verið um 280 kílómetrar, og ástand vega mjög misjafnt.

Það er svipuð vegalengd og ef lögreglan í Reykjavík færi lengra en á Kirkjubæjarklaustur.

MP5 með sömu hlaupstærð og Glock-skammbyssan

Aðalsteinn bendir á, í tengslum við umræðu um lögregluna og skotvopn, að MP5 byssan sé í rauninni ekki ólík Glock-skammbyssunni, sem lögreglan hefur aðgang að í dag.

„Hún hefur þann möguleika að vera sjálfvirkt vopn að öllu leyti, en hún verður aldrei og er ekki notuð sem slík. Hún er mun nákvæmari, þannig að ef við þurfum að beita skotvopni gegn einstaklingi þá höfum við möguleika á að gera það á meira færi og með meira öryggi heldur en með Glock. Þetta snýst að miklu leyti um það, þá þurfum við ekki að vera alveg við manninn. Ef hann er á víðavangi og er að skjóta á fólk þá getum við brugðist við á lengra færi.“

Gekk um götur bæjarins vopnaður

Sérsveit Ríkislögreglustjórans á æfingu.
Sérsveit Ríkislögreglustjórans á æfingu. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert